Finnbogi Baldvinsson, sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Icelandic Group, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að ekkert sé til í því að hann hafi teiknað upp viðskiptin við Triton fjárfestingarsjóð og leitt félagið að samningaborðinu.

Blm.:Teiknaðir þú upp þessi viðskipti og leiddir Triton að samningaborðinu ásamt Friðriki Jóhannssyni [sem aðstoðaði Triton í viðræðunum við Framtakssjóðinn]?

„Nei, það er ekkert til í því,“ svarar Finnbogi ákveðið og er ósáttur við hvernig umræðan og fréttaflutningur af þessum viðræðum hefur verið. Skipulega hafi verið reynt að gera störf hans tortryggileg í stað þess að ræða efnisatriði málsins. Með öðrum orðum hefðu hann og fleiri þurft að sitja undir persónulegu skítkasti. Látið var líta út fyrir að hann hefði sérstaka hagsmuni af því umfram aðra að Triton keypti Icelandic og að gengið væri til viðræðna við Triton af frændsemi hans og Finnboga Jónssonar, framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins. Og bak við Finnboga væri að auki bróðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og þetta væri eitt stórt ráðabrugg til að afhenda þeim félagið.

„Ég teiknaði ekki upp þessar viðræður. Triton er með um fimm milljarða evra til umráða í sínum fjárfestingum. Á bak við sjóðinn eru stærstu fjárfestar og lífeyrissjóðir í Skandinavíu og Ameríku. Þeir eru nógu stórir til að hugsa um sig sjálfir. Framtakssjóðurinn gat líka valið á milli aðila til að fara í viðræður við. Ákvörðun FSÍ um að ræða við Triton hefur væntanlega byggst á því að sjóðurinn er ábyggilegur og traustur samstarfsaðili ásamt því að bjóða gott verð,“ segir Finnbogi.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag, er að finna ítarlegt viðtal við Finnboga Baldvinsson. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.