Afkoma bílaumboðanna undanfarin ár er nátengd uppgangi ferðaþjónustunnar í landinu. Segja má að bílaleigurnar hafa að stórum hluta séð um að yngja íslenska bílaflotann á síðustu árum.

Í skýrslunni „Íslensk ferðaþjónusta", sem Greining Íslandsbanka gaf út á dögunum kemur fram að frá og með árinu 2010 til 2015 keyptu bílaleigur á bilinu 39 til 56% allra nýrra bíla sem seldir voru hér á landi. Fyrir hrun fór þetta hlutfall hæst í 23% en það var árið 2008. Á árunum frá 1999 til 2007 var þetta hlutfall á bilinu 5 til 13%. Þess ber að geta að inni í þeim tölum sem stuðst er við í skýrslunni eru ekki bara fólksbílar heldur einnig litlir sendibílar, sem notaðir eru sem bílaleigubílar (e. camper).

Í skýrslunni segir að á síðasta ári hafi verið seldir um 15.300 nýir fólksbílar og litlir sendibílar og að þar af hafi bílaleigurnar keypt um 6.600. Er því spáð að á þessu ári verði seldir um 17.500 bílar og þar af muni bílaleigur kaupa um 7.500 bíla eða um 43% af heildinni.

„Miðað við það sem er að gerast þá sýnist mér þetta vera mjög varlega áætlað," segir Óðinn Valdimarsson, viðskiptastjóri hjá Ergo og einn höfunda skýrslunnar. „Það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta myndi enda í um 19 þúsund bílum."

Eins og áður sagði voru skráðir um 2.300 nýir fólksbílar á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Óðinn segir að stór hluti af þessum bílum séu bílaleigubílar. „Við höfum aldrei séð jafn marga bílaleigubíla koma inn í janúar og febrúar eins og núna," segir Óðinn.

„Meðalverð á nýjum bílaleigubíl var tæplega 3 milljónir króna án virðisaukaskatts á árinu 2015, sem þýðir að bílaleigur hafa lagt  í fjárfestingu upp á um 19,5 milljarða króna í bílum á síðasta ári,  en sem hlutfall af veltu greinarinnar má telja þetta frekar hátt," segir í skýrslu Íslandsbanka. "Ef  horft er til áætlaðrar sölu ársins 2016 þá stefnir í 22,5 milljarða króna fjárfestingu hjá bílaleigunum á árinu eða um 8,4% af  heildarfjárfestingu atvinnuveganna í ár samkvæmt okkar spá, og er hér einungis um að ræða beinar fjárfestingar í bílum en þar að  auki er margt annað sem kemur til viðbótar eins og dekkjakaup, varahlutakaup, eldsneytiskaup og fjárfestingar í húsnæði og  aðstöðu til að halda utan um stækkandi starfsemi og flota."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning .