Hagnaður Hampiðjunnar nam ríflega 7,9 milljónum evra, andvirði 1.300 milljóna króna á fyrri hluta ársins og jókst um 25% milli ára. Sala félagsins dróst eilítið saman en beinn framleiðslukostnaður sömuleiðis. Að auki dróst rekstrarkostnaður saman sem skýrir að hluta hagnaðaraukninguna.

Heildarafkomu samstæðunnar er hins vegar um 1,5 milljóna evru lægri, andvirði 255 milljóna króna. Ástæðan er þýðingarmunur vegna starfsemi erlendra dótturfélaga sem færður er vegna gengismun á fjárfestingum félagsins erlendis. Í upphafi árs keypti Hampiðjan, sem meðal annars framleiðir og selur veiðarfæri, 80% hlut í skosku félögunum Jackson Trawls og Jackson Offshore Supply. Félagið á nú hlut í um 30 félögum víðsvegar um heiminn.

Eins og fram kom í drögum að uppgjöri nam hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) 14 milljónum evra á fyrri helmingi ársins, andvirði 2.274 milljóna króna sem er um 17,5% aukning milli ára.

Handbært fé félagsins hækkaði um 246 milljónir króna á fyrri hluta árs. Hreinar fjárfestingar félagsins í varanlegum rekstrarfjármunum nam ríflega milljarði króna og um 900 milljónir var vegna fjárfestinga í dótturfélögum sínum. Á móti var félagið með jákvætt handbært fé frá rekstri sem nam 1,5 milljarði króna og tók bankalán.

Eignir félagsins hafa aukist um á árinu og nema nú 39 milljörðum króna. Þar af eru um 14,7 milljarðar króna varanlegir rekstrarfjármunir og 7,5 milljarðar óefnislegar eignir. Skuldir félagsins hafa vaxið sömuleiðis og nema nú ríflega 19 milljörðum króna, eigið fé félagsins er 20 milljarðar króna.

Eiginfjárhlutfall Hampiðjunnar hefur lækkað um prósentustig það sem af er ári og stóð í 51,1% við lok annars ársfjórðungs.