Bjarni segir að þó meirihluti sé fyrir nýlögðu fjárlagafrumvarpi eins og það standi sjái hann ekki fram á að það verði afgreitt fyrir kosningar, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sér hann fram á að kosningar verði boðaðar í nóvember.

„Við erum auðvitað í mjög snúinni stöðu með fjárlagafrumvarpið núna, og væntanlega erum við að fara að sjá þetta fjárlagafrumvarp daga uppi, en það verður augljóslega grunnur fyrir næsta fjárlagafrumvarp,“ segir Bjarni. „Mér sýnist að ný ríkisstjórn sem taki við eftir kosningar þurfi að fá flýtimeðferð með fjárlagafrumvarp sitt.“

Skylda að klára að setja fjárlög

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra það skyldu allra flokka að klára að setja fjárlög fyrir næsta ár.„Þessi staða er komin upp. Það vorum ekki við sem ákváðum að fara þessa leið að slíta ríkisstjórninni sem við horfum upp á núna, en öllum ábyrgum stjórnmálaflokkum ber skylda til að klára þetta mál. Fjárlagafrumvarpið er ekkert aukamál, það er stórmál,“ segir Guðlaugur Þór.

„Þetta gekk fyrir síðustu jól og það var vel. Það var ekki síst Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar sem átti stóran þátt í því, því það var einstaklega erfitt að ná því saman við þær aðstæður sem þá voru uppi.“