Alls eru 1.360 skuldarar í þeirri stöðu að skuldir þeirra nema meira en 200% af virði eigna þeirra. Þessir aðilar eru með samtals lán upp á 49 milljarða króna. Um níu milljarðar króna myndu skafast af lánum þeirra ef farið verður út í flata niðurfellingu á skuldum. Hver og einn þeirra myndi því fá um 6,5 milljónir króna afskrifaðar að meðaltali.

Þessar tölur voru kynntar á fundi ríkisstjórnar, hagsmunaaðila og annarra um skuldavanda heimilanna á þriðjudaginn. Tilgangurinn var að sýna fram á afleiðingar af 18% flatri niðurfærslu skulda sem Hagsmunasamtök Heimilanna hafa lagt til.

Í tölunum kemur einnig fram að rúmlega 8.000 fasteignalán eru yfir 30 milljónir króna og undir 2.000 þeirra eru yfir 50 milljónum króna. Langflest fasteignalán eru á bilinu 6 til 16 milljónir króna.Þ orri skuldanna virðist vera hjá fólki á aldrinum 32 til 40 ára.

Meðalskuldir á fjölskyldu er hæstar hjá þeim sem eru í kringum 36 ára aldurinn, eða tæplega 25 milljónir króna. Þá kemur skýrt fram að þeir sem þéna mest skulda mest. Meðalskuldir eru mun hærri hjá þeim sem eru með yfir tíu milljónir króna á mánuði en öðrum. Þessi hópur fengi því mest afskrifað við flata niðurfellingu.