*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 30. maí 2021 10:45

Fleiri félög á leið á markað

Forstjóri Kauphallarinnar sér fyrir sér að hún geti stækkað verulega til viðbótar við það sem nú er.

Ingvar Haraldsson
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Eyþór Árnason

Heildarvirði félaga í Kauphöllinni er að á leið yfir 2.000 milljarða króna við skráningu fjögurra félaga á markað í sumar, en skráningarnar eru þær fyrstu í tvö ár. Það stefnir í að félögunum muni fjölga enn frerkar á næstu misserum.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur Kauphöllina þó eiga nóg inni og telur allar forsendur til að hún nái álíka stærð og á Norðurlöndunum í hlutfalli við stærð hagkerfisins. Magnús telur ekki ólíklegt að tvö fyrirtæki til viðbótar verði skráð á markað næsta haust.

Sjá einnig: Kauphöllin á leið yfir 2.000 milljarða

„Mér finnst ekki óeðlilegt að horfa til þess til lengri tíma litið að hlutabréfamarkaðurinn geti náð 130-150% af landsframleiðslu við fullkomlega eðlilegar markaðsaðstæður,“ segir Magnús en hlutfallið nær líklega í kringum tveimur þriðju af landsframleiðslu síðar í sumar. 

„Það eru fleiri fyrirtæki en áður sem telja að umhverfið sé mjög hagstætt til skráningar. Þar skiptir máli lágt vaxtastig, mikið fé í innistæðum og aukinn áhugi almennings og erlendra fjárfesta á Íslandi,“ segir Magnús.

„Það vantar ekki spennandi félög til að skrá. Bæði stærri félög og efnileg vaxtarfélög.“

Ríkið gæti skráð fleiri félög

Til að mynda ættu fleiri sjávarútvegsfyrirtæki að sjá skráningu á markað sem valkost eftir hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar fyrir tveimur vikum. Tvöföld umframeftirspurn var eftir þeim bréfum sem voru til sölu í útboðinu.

„Sjávarútvegurinn hlýtur að líta bæði til gengis Brims á markaði og útboðs Síldarvinnslunnar.“ Brim hefur hækkað um 14% frá útboði Síldarvinnslunnar. Síldarvinnslan og Brim eru einu sjávarútvegsfélögin á markaði ef frá er talið sölufélagið Iceland Seafood en 24 sjávarútvegsfyrirtæki voru skrá á markað árið 2000.

Þá eigi ríkið einnig eignir sem séu vel fallnar til skráningar til viðbótar við Íslandsbanka. Ríkið gæti til að mynda selt hluta af eignarhlut sínum í Landsvirkjun eða Landsbankanum samhliða skráningu á markað. „Það yrði risa mál fyrir markaðinn og myndi gera honum mjög gott ef ríkið myndi ljá máls á því að skrá fyrirtæki eins og Landsvirkjun á markað. Ríkið þyrfti ekki endilega að selja stóran hluta af fyrirtækinu og gæti haldið áfram að eiga ráðandi hlut í því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.