„Það er mesta furða. Þetta hefur gengið þokkalega. Ég átti von á meiri samdrætti," segir Svava Eyjólfsdóttir, verslunarstjóri herrafataverslunar Guðsteins á Laugaveginum, þegar hún er spurð hvernig reksturinn gangi. Hún segir að gengi krónunnar hafi þó mikil áhrif.

„Það er ekki hægt að verðleggja vöruna rétt í svona árferði. Við getum ekki velt hækkunum vegna gengisbreytinga beint út í verðlagið. Við verðum að mæta viðskiptavininum á miðri leið."

Hún segir að þegar svona áföll dynji á þjóðinni sé eðlilegt að marka þá stefnu að verðleggja vöruna þannig að hægt verði að hafa upp í kostnað og laun. Ekki eigi að stefna að því að reka fyrirtækið með miklum hagnaði.

Óvissan með krónuna er mikil

Svava segir að verslunin sé með stóran hóp af föstum viðskiptavinum á öllum aldri sem hafi haldið tryggð við fyrirtækið í gegnum árin. „Ég held að ein skýringin á því að verslunin gangi ágætlega sé sú að hún hafi flust meira inn í landið." Kreppan hafi með öðrum orðum orðið til þess að fleiri versli á Íslandi en áður.

Verslun Guðsteins búi einnig að því að hafa verið til lengi en hún er nú á 91. aldursári. „Þá erum við skuldlaus sem skiptir miklu máli." Hún segir á hinn bóginn að óvissan framundan, vegna krónunnar, sé mikil.

„Ef hún styrkist ekki kemur hún til með að hafa mjög slæm áhrif á verslun í landinu," segir hún að síðustu.