Flugfélagið PLAY tilkynnir að það muni fljúga daglega til Amsterdam næsta vetur en PLAY fór í sitt áætlunarflug þangað í gær. Flugfélagið verður með áætlunarferðir fimm sinnum í viku í sumar og taka svo daglegu ferðirnar við í lok október.

Schiphol-flugvöllurinn í Amsterdam er ein helsta samgöngumiðstöð Evrópu og segir PLAY að daglegar ferðir þangað muni einnig falla vel að tengiflugi félagsins til áfangastaða í Norður Ameríku.

„Flugfélög bíða í röðum eftir því að komast að á Schiphol-flugvelli og því er það einstakt afrek fyrir PLAY að fá þar lendingarleyfi og geta sett dagleg flug í sölu næsta vetur. Flugvöllurinn er sá fjórði stærsti í Evrópu og því mikilvæg viðbót í okkar leiðakerfi,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins PLAY.

Flugfélagið tók þar að auki á móti sinni tíundu farþegaþotu beint úr Airbus-verksmiðjunni í Hamborg í síðustu viku en meðalaldur flugflotans er nú um 2 ár sem er sá yngsti í flugflota Evrópu.