Frjálslyndur stjórnarandstæðingur vinnur borgarstjórnarkosningar í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands í sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru í landinu á sunnudag.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær voru kosningarnar í Ungverjalandi haldnar sama dag og kosið var til þings í nágrannalandinu Póllandi, þar sem stjórnarflokkurinn missti meirihluta sinn í efri deildinni, þó þeir bættu við sig í þeirri neðri.

Sigur Gergely Karaczony á fulltrúa stjórnarflokksins Fidez, Istan Tarlos, sem naut stuðnings forsætisráðherans Viktor Orban í höfuðborginni er sagður fyrsti meiriháttar ósigur Orban árum saman.

Stjórnarandstaðan náði fótfestu víða um landið og sigraði kosningar um borgarstjóra í 10 af 23 helstu borgum landsins, en í Búdapest náði stjórnarandstaðan jafnframt flestum kjördæmum borgarstjórnarinnar og því meirihluta.

Aðild að flokkabandalagi með CDU sett á ís

Karaczony sem er hlynntur auknu ESB samstarfi sagði sigurinn sögulegan. „Við munum taka borgina frá 20. öldinni inn í þá 21.,“ hefur BBC eftir honum. „Búdapest verður græn og frjáls, við munum færa hana aftur til Evrópu.“

Ósigurinn nú er í raun sá fyrsti í meiriháttar kosningum í landinu frá árinu 2006, fyrir Fidesz flokkinn sem er til hægri í ungversku flokkaskipulagi og hefur hallað sér síðustu ár meir í átt til þjóðernishyggju þó flokkurinn sé meðlimur í og starfað með ESB sinnuðum kristilegum demókrötum í Evrópska þjóðarflokknum (EPP) á Evrópuþinginu.

Aðild hans að flokkabandalaginu sem meðal annars inniheldur stjórnarflokk Merkel í Þýskalandi, CDU, og áður en klufu sig út úr því Íhaldsflokk Bretlands, var þó sett á ís í mars á þessu ári. Gerðist það eftir langvarandi deilur um stjórnskipunarmál og aukin völd Fidesz í Ungverjalandi sem og hvort landið ætti að taka við auknum fjölda hælisleitenda sem komið hafa til álfunnar yfir Miðjarðahafið, en því hefur Orban neitað.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hingað til verið of ósamheldnir til að ná að ná að standa upp í hárinu á Fidesz, og tókst ekki að ná saman bandalagi fyrir ári síðan, en núna tókst það í stærstum hluta landsins. Einnig er líklegt að kynferðishneyksli eins borgarstjóra Fidesz flokksins hafi haft áhrif en myndband komst í dreifingu sem sýndi hinn gifta borgarstjóra Gyor borgar í hópkynlífi á snekkju á Adríahafinu.