"Það er ljóst að lækkandi olíuverð hefur áhrif á rekstur flugfélaga. Þar af leiðandi hefur það áhrif á flugfargjöld. Það liggur í augum uppi,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið .

Olíuverð hefur farið lækkandi undanfarnar vikur og stendur nú í kringum 40 dali á tunnuna. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir einnig í samtali við Morgunblaðið að lækkun olíuverðs gæti skapað svigrúm til að lækka flugfargjöld hjá félaginu, þar sem eldsneyti sé stór hlut kostnaðarins hjá flugfélögum.

Þá hefur verð á haust- og vetrarferðum með Heimsferðum lækkað að meðaltali um 6% frá sama tíma á síðasta ári, að sögn Tómasar Gestssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann segir að haldist olíuverð lágt geti verðið lækkað enn frekar.