*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 5. maí 2021 19:15

Flugrekstur enginn staður fyrir kúreka

Birgir Jónsson, forstjóri Play, trúir því að samkeppnisbroddur félagsins til lengri tíma muni felast í smæðarhagkvæmni félagsins.

Andrea Sigurðardóttir
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir ekkert svigrúm fyrir hvatvísi í flugrekstri.
Eyþór Árnason

Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, ræðir tækifæri og áskoranir í flugrekstrinum í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Aðstæður vegna faraldursins veita Play byr undir báða vængi nú þegar líður að flugtaki, þar sem félaginu hefur tekist að læsa stóra kostnaðarliði á hagstæðum kjörum til næstu ára. Samkeppnisbroddur flugfélagsins til lengri tíma mun þó ekki ráðast af þessum þáttum, enda tímabundnir og Play ekki einir um að njóta góðra kjara á viðsjárverðum tímum.

„Það er auðvitað nauðsynlegt að viðskiptamódelið sé sjálfbært til lengri tíma litið, en meðgjöfin í stöðunni núna kemur sér vel á fyrstu metrunum. Hún fleytir okkur langt og á meðan höfum við tíma til að byggja vörumerki Play upp, öðlast viðskiptavinatryggð og ná vissum stöðugleika í rekstrinum. Til lengri tíma litið trúi ég því að samkeppnisbroddur félagsins muni felast í smæðarhagkvæmninni og þeim sveigjanleika sem hún felur í sér. Við getum ekki orðið stærri en easyjet eða álíka félög, og þá er eins gott að nota sveigjanleikann sem felst í því að vera minni, það er okkar styrkleiki," segir Birgir.

Hann segir þó mikilvægast af öllu að huga að ákvörðunartöku innan félagsins. „Það er mjög erfitt að keppa við félög sem hafa mikinn skala án þess að fara í gegnum það hvernig ákvarðanir eru teknar í sjálfum flugrekstrinum. Að mínu mati eru þær aðal málið í þessu, því þar verður aðal kostnaðurinn til."

Rólegur kúreki

Ákvörðunartakan reyndist Akkilesarhæll hinna föllnu íslensku lággjaldafélaga, Wow air og Iceland Express, að mati Birgis.

„Sú aðferðarfræði sem hefur virkað í öðrum rekstri virðist af einhverjum ástæðum sjaldnar nýtt þegar kemur að flugrekstri, allavega ekki hjá þessum fyrirtækjum. Oftast eru það einstaklingar sem að ráða för, það er að segja eigendur sem eru mjög atkvæðamiklir. Þannig er verið að taka allskonar ákvarðanir, mjög hraðar ákvarðanir, sem hvorki eru byggðar á gögnum né greiningum. Þetta verður til þess að fyrirtækin vaxa of hratt, jafnvel á sama tíma og þau eru vanfjármögnuð, með þeim afleiðingum að þau enda úti í skurði. Það er ekkert svigrúm fyrir hvatvísi í þessum bransa. Upphæðirnar eru stórar, veltan er mikil og margínan svo agnarsmá að þetta er enginn staður fyrir kúreka. Því kvikara sem viðskiptaumhverfið er, því mikilvægara er að halda yfirvegun við ákvörðunartöku. Ef maður fer að snúast með storminum fer allt í rugl. Vandamálið liggur því ekki í rekstrarumhverfinu, heldur rekstrinum sjálfum. Það er ekki neitt eðlisfræðilegt lögmál að það sé bara hægt að vera með eitt flugfélag á Íslandi.  Það er rekstrarlega nálgunin sem bregst og það er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef aldrei haft áhuga á því að vera í flugrekstri."

En hingað erum við samt komin. Birgir, sem hefur engan áhuga á flugrekstri og raunar hræðist hann, er enn á ný kominn í forystuhlutverk í íslensku lággjaldaflugfélagi, eftir að hafa gefið það út að það myndi hann aldrei gera aftur en hann var um tíma forstjóri Iceland Express og aðstoðarforstjóri Wow air. Aldrei að segja aldrei.

„Ég skynja allt annan takt hjá Play. Á bak við félagið er gríðarlega sterkur hópur hluthafa og enginn einn sem er of atkvæðamikill. Öll nálgun, öll ákvarðanataka er á hendi stjórnar og framkvæmdastjórnar og með miklu formlegri hætti en var í þessum föllnu félögum sem Play er gjarnan borið saman við. Að mínu mati er þetta lykilforsenda þess að við náum árangri og skortur á þessu aðalástæða þess að aðrir héldu ekki dampi. Núna sjáum við til dæmis að Bandaríkin eru að opnast og þá gæti verið freistandi fyrir okkur að hefja flug þangað í sumar frekar en eftir áramót, en þá værum við farin að hlaupa of hratt. Við búum við þann lúxus að vera þetta vel fjármögnuð og getum því tekið réttu skrefin á réttum tíma."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslenskir fjármálastjórar eru bjartsýnni en evrópsk starfssystkin þeirra samkvæmt könnun Deloitte.
  • Umfjöllun um rekstur Air Atlanta sem gera þurfti miklar breytingar í faraldrinum.
  • Þorri umsagnaraðila um fyrirhugaðar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu telja tillögurnar til að auka flækjustig, kostnað og rétt væri að draga þær til baka.
  • Sagt er frá stofnun nýrrar bílaleigu eigenda bílaumboðsins BL.
  • Þróun verðbólgu og viðbrögð markaðs- og greiningaraðila reifuð.
  • Fjallað er um innanhússrækt Hótels Akureyrar á eigin grænmeti.
  • Nýjasti liðsmaður Lind fasteignasölu Elías Haraldsson fer yfir starfsferilinn og rifjar upp gömul íþróttaafrek.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem skrifar um Samfylkinguna og dauðu kratastefnuna.
  • Óðinn fjallar um áherslu ASÍ og hvort nóg sé til.
Stikkorð: Birgir Jónsson Play