Stuart Gulliver, framkvæmdastjóri HSBC sagði í viðstali við Sky News að bankinn gæti flutt allt að 1.000 störf frá London til Parísar ef Bretland gengur úr Evrópusambandinu. Bankinn tilkynnti í morgun að hann ætlaði að halda höfuðstöðvum sínum áfram í London en Stuart segir að kosningarnar muni ekki hafa áhrif á ákvörðun um staðsetningu höfuðstöðva bankans.

Ef að almenningur í Bretlandi myndi þó komast að þeirri niðurstöðu að yfirgefa sambandið þá myndi bankinn líklega færa fjölda starfa frá London og á meginlandið. Um það bil 5.000 manns starfa hjá bankanum í fyrirtækjaráðgjöf og alþjóðlegri bankastarfsemi en Stuart gerir ráð fyrir því að um 20% þeirra gæti færst yfir til Parísar. Ákvörðunin myndi þó byggjast á þeim samningum sem Bretland myndi ná við Evrópusambandið, sérstaklega ákvæðum samninga um viðskipti þvert á landamæri.

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu en hún verður haldin á þessu ári.