Rannsóknarheimildir Fjármálaeftirlitsins til að fylgjast með lögum um gjaldeyrismál verða styrktar í frumvarpi viðskiptaráðherra sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun.

Í frumvarpinu fær FME m.a. heimild til að kyrrsetja eignir þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að lög um gjaldeyrismál hafi verið brotin.

„Menn töldu ástæðu til að styrkja þessar rannsóknarheimildir þannig að FME geti m.a. krafið einstaklinga og lögaðila um upplýsingar og gögn," segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. FME eigi líka að geta kallað aðila til skýrslugjafar og krafist þess að starfsemi verði hætt leiki grunur á því að fyrrgreind lög hafi verið brotin.

Búist er við því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi á næstunni - en vegna nefndardaga falla þingfundir niður á næstu dögum.