Fjármálaeftirlitið sagði í kjölfar athugunar á útlánaáhættu SPRON í september 2007 að skortur væri á yfirsýn yfir heildarútlán samstæðunnar og eftirfylgni með lánum til byggingaverktaka og að haldið væri sérstaklega utan um lán í erlendri mynt til innlendra aðila sem ekki hefðu tekjur í erlendri mynt. Almennt væri þó haldið ágætlega utan um útlán hjá samstæðunni.

„Þá var gerð sérstök athugasemd við að sparisjóðurinn tæki handveð í stofnfjárbréfum umfram 10% af heildarnafnvirði stofnfjárbréfa sparisjóðsins, og kom fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins að þar færi sjóðurinn ekki að lögum. Einnig fundust dæmi um að fyrirgreiðslur til framkvæmdastjóra SPRON-Verðbréfa hf. væru ekki teknar fyrir á stjórnarfundi. Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins beindust að SPRON-Verðbréfum og vörðuðu flestar skýrsluskil, lánareglur og önnur formsatriði hjá félaginu,“ segir í skýrslunni.

Fjármálaeftirlitið fór sérstaklega yfir útlán með veði í verðbréfum hjá samstæðu sparisjóðsins. „Gerð var alvarleg athugasemd við að tryggingarþekja verðbréfa hefði lækkað talsvert frá árinu 2006 til ársins 2007 og væri ekki í samræmi við ákvæði í lánareglum sparisjóðsins og dótturfélaga hans. Talið var að vísbending væri um að samstæða sparisjóðsins gerði minni kröfur en áður um tryggingarþekju sem leiddi til mikillar útlánaáhættu í lánum með veði í verðbréfum. Leit Fjármálaeftirlitið svo á að þessi þróun á tryggingarþekju útlána með veði í verðbréfum væri ekki „æskileg“ samfara aukningu slíkra útlána. Jafnframt lagði Fjármálaeftirlitið áherslu á að líta bæri þröngt á undanþágur frá þeirri meginreglu lánareglnanna að almennt ætti ekki veita lán með handveði í óskráðum hlutabréfum, en talsverð aukning hafði verið í slíkum lánum þrátt fyrir ákvæði lánareglna. Þá hafði sparisjóðurinn tekið að handveði stofnfjárbréf í sjálfum sér fyrir um 14% af framreiknuðu heildarnafnverði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum.“

Ytri endurskoðandi sendi svar við skýrslu Fjármálaeftirlitsins 8. febrúar 2008. Í svarinu kom meðal annars fram að ástæða þess að aukning hefði orðið á handveðum í óskráðum bréfum væri einkum sú að handveð hefði verið tekið í stofnfjárbréfum sparisjóðsins sjálfs en stofnfjárbréfin væru orðin skráð hlutabréf en hefðu verið óskráð þegar úttekt Fjármálaeftirlitsins fór fram. Fjármálaeftirlitið hafði einnig bent á að virði útlána með veði í verðbréfum, þar sem tryggingarþekja væri 125% eða lægri, hefði aukist til muna. Í svari ytri endurskoðanda við þessari athugasemd kom fram að starfsmenn sparisjóðsins fylgdust daglega með tryggingarþekju og kölluðu eftir viðbótartryggingum ef við ætti.