Fons og Sund, tveir af þremur aðaleigendum Northern Travel Holding, eru nú að reyna að selja sig út úr félaginu. Þetta  fullyrða heimildamenn danska viðskiptablaðsins Børsen sem fjallar um málið í dag og setur stórt spurningamerki við hvort kaupendur finnist og ef þeir finnist á annað borð hvort nokkuð að ráði fengist fyrir eignarhlutina.

Talsmenn Fons og Sunds vildu ekki ekki staðfesta fréttina við Børsen -en höfnuðu henni þó ekki alfarið.

„Það er rétt að tveir af þremur eigendunum eru að reyna að losna út,“ hefur Børsen  eftir einum af fleiri heimildarmanna sinna.

Fons á 44% hlut í Northern Travel, FL Group [ FL ] á 34% og Sund 22% en auk danska lággjaldafélagsins Sterling og Iceland Express á Northern Travel Holding  meirihlutann í breska flugfélaginu Astreus og þriðjungshlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket.

Pálmi Haraldsson, forstjóri og annar aðaleigendi Fons, segir við Børsen að aldrei hafi verið rætt um sölu á Sterling og Northern Travel Hoilding í stjórn Fons en talsmaður Sunds vildi ekki tjá sig um málið og talsmaður Fl Group sagðist ekki tjá sig um orðróm.

Miklar skuldir

Í frétt Børsen segir að rauð viðvörunarljós blikki í rekstri nær allra félaganna sem eru í eigu Northern Travel Holding og vonirnar um að takast megi að snúa taprekstri  í hagnað færist alltaf fjær.

„Tveir af þremur eigendum Sterling hafa reynt að finna kaupanda. En er eitthvað að kaupa?“, segir í frétt Børsen.

„Spurningin er í reynd hversu mikið þeir verða að greiða til þess að losna við eignarhlut sinn,” hefur blaðið eftir einum heimildarmanna sinna í fluggeiranum.

FL Group seldi Northern Travel Holding Sterling  alveg í lok ársins 2006 fyrir tuttugu milljarða króna og var kaupverðið á sínum tíma greitt með sex milljörðum króna í reiðufé og 14 milljörðum króna í formi seljendaláns til þriggja ára sem FL Group veitti. Uppgefnar skuldir Northern Travel Holding námu um 20 milljörðum króna strax eftir stofnun þess.