José Socratés forsætisráðherra Portúgals hringdi í Angelu Merkel kanslara Þýskalands síðastliðinn föstudag og sárbað um aðstoð frá henni. Samkvæmt nærstöddum hljómaði Sócrates örvæntingarfullur.

Guardian greindi frá á vefsíðu sinni í gær. Portúgal á í skuldavanda og talið að ríkið þurfi á aðstoð björgunarsjóðs evruríkja, þar sem Þýskaland er leiðandi, að halda. Opinberlega hafa Portúgalir þó neitað að þeir þurfi nokkra aðstoð.

Samkvæmt frétt The Guardian spurði Socratés hvað hann ætti að gera í stöðunni og sagðist fylgja fyrirmælum Merkel í einu og öllu, með einni undantekningu. Hann myndi ekki biðja um peninga frá björgunarsjóði evruríkja þar sem aðstoðin er bundin skilyrðum sem Portúgal yrði gert að uppfylla.

Merkel ræddi samtalið við Dominique Strauss-Kahn, yfirmann Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og Giulio Tremonti, utanríkisráðherra Ítalíu. Þýskur stjórnandi innan AGS sem einnig var viðstaddur gerði lítið úr ósk portúgalska forsætisráðherrans og sagði hana tilgangslausa þar sem Sócrates þyggi engin ráð sem honum eru gefin.

Í grein The Guardian er sagt að samskiptin lýsi vel þeim vanda sem evruríkin glíma við og einkennast helst af samskiptaleysi.

Fundi fjármálaráðherra ríkjanna lauk í dag án þess að afgerandi niðurstaða um stækkun björgunarsjóðsins var tekin. Stækkun stendur einna helst á Þjóðverjum sem telja ekki nauðsyn á frekari heimild sjóðsins til lántöku.