*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Erlent 20. maí 2018 15:46

Forsetakosningar hafnar í Venesúela

Maduro forseti lofar að leysa efnahagsvanda Venesúela næstu sex árin en óðaverðbólgan í landinu er allt að 18.000%.

Ritstjórn
Helsti keppinautur Maduro forseta Venesúela er Henri Falcón, en þrátt fyrir loforð um að taka upp Bandaríkjadal til að stöðva óðaverðbólguna í landinu er hann talinn ólíklegur til að sigra vegna sterkra taka Maduro á stjórnkerfinu, hernum og hópum fátækra
epa

Forsetakosningar í Venesúela eru hafnar, en í þeim sækist Nicolas Maduro, arftaki Hugo Chavez eftir endurkjöri til næstu sex ára. Gríðarleg óðaverðbólga, verðþök og sósíalísk efnahagsstjórnun hafa rústað efnahagi landsins undir stjórn þeirra en Maduro er þrátt fyrir það talinn eiga sigurinn vísan. Vegna víðtæks svindls og ógnana taka margir stjórnarandstæðinar ekki þátt.

Olíuiðnaður landsins er í það slæmri stöðu að framleiðsluminnkunin í landinu samsvarar svipuðu magni og OPEC ríkin og Rússland sammæltust um að öll ríkin myndu draga úr framleiðslu sinni til að reyna að hækka olíuverð. Gríðarlegur fólksflótti hefur verið frá landinu og hefur kennsla til að mynda víða lagst niður vegna skorts á kennurum og nemendum. Skortur er á lyfjum og mat.

Mótframbjóðandi Maduro úr síðustu kosningum, Henrique Capriles, sem hlaut 49,1% á móti 50,6% atkvæða Maduro, hefur síðan verið bannað að taka þátt í pólítísku starfi næstu 15 árin. Þangað til á síðasta ári var hann héraðsstjóri í Miranda héraði. Maduro bannaði öllum þeim flokkum sem ekki tóku þátt í sveitarstjórnarkosningum í landinu á síðasta ári þátttöku í forsetakosningunum nú.

Stjórnarandstöðuflokkum bannað að taka þátt

Þrír stjórnarandstöðuflokkar, Réttlæti fyrst, Alþýðuviljinn og Lýðræðisaðgerðarflokkurinn höfðu mótmælt því að kosningakerfið hallaði á þá með því að taka ekki þátt.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um er gegndarlaus spilling og óðaverðbólga í landinu, sem situr á mesta þekkta olíuauði í heiminum. Verðbólgan nú er talin vera um 13 til 18 þúsund prósent, og eiga flestir almennir borgarar erfiðleikum með að eiga í sig og á.

Mataraðstoð skilyrt með stuðningi við stjórnarflokk

Enn veita þó stjórnvöld mataraðstoð til ákveðinna hópa, en það er talið vera með skilyrðum um stuðning í kosningum í landinu.
Upphaflega áttu kosningarnar nú að fara fram í desember, en eftir að hafa verið færðar fyrst fram til 22. apríl var þeim frestað á ný nú til 20. maí.

Helsti stjórnarandstæðingurinn sem tekur þrátt fyrir bága stöðu lýðræðis í landinu eftir að þingi landsins var vikið til hliðar í kjölfar þess að stjórnarandstæðingar náðu þar meirihluta, er fyrrum stuðningsmaður Chaves, Henri Falcón.

Falcón hafði yfirgefið flokk Chaves árið 2010 og stofnaði hann síðar Framsóknaraðgerðarflokkinn í hvers umboði hann fer nú fram. Eitt helsta loforða hans er að binda enda á óðaverðbólguna með upptöku Bandaríkjadals.