*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 23. janúar 2021 19:01

Fræðir landsmenn um lesblindu

Tónlistarkonan Sylvía Erla Melsted gefur út heimildarmynd og barnabók um lesblindu til að stuðla að vitundarvakningu.

Sveinn Ólafur Melsted
Sylvía og hundurinn hennar Oreo eru afar náin og hefur Oreo reynst Sylvíu ómetanlegur stuðningur í gegnum námsferilinn.
Aðsend mynd

Tónlistarkonan Sylvía Erla Melsted þekkir lesblindu af eigin raun en hún var greind með lesblindu undir lok 9. bekkjar í grunnskóla, sem þykir nokkuð seint. Nær allar götur síðan hefur lesblinda verið henni hugleikin og á sautjánda aldursári fann hún hjá sér þörf til að stuðla að vitundarvakningu um lesblindu í samfélaginu, í formi heimildarmyndar. Nú, um sjö árum síðar, er heimildarmyndin orðin að veruleika, en Sagafilm framleiðir myndina og komu Samtök atvinnulífsins, menntaog menningarmálaráðuneytið auk fleiri aðila að gerð hennar. Myndin verður frumsýnd á RÚV þann 25. febrúar næstkomandi.

„Ég áttaði mig á því á táningsaldri hvað ég væri ótrúlega heppin að eiga mömmu sem aðstoðaði mig og litla bróðir minn, sem er einnig lesblindur, mjög mikið. Hún skaffaði okkur aukakennslu og sýndi mikinn áhuga á að aðstoða okkur. Ég áttaði mig á að ég bjó við forréttindi en svona stuðningur á að vera mannréttindi en ekki forréttindi," segir Sylvía um það hvernig hugmyndin á bak við heimildarmyndina kviknaði.

Í heimildarmyndinni kynnast áhorfendur Sylvíu, auk fleiri viðmælenda, og segir Sylvía frá sérstöku kerfi sem hún smíðaði sjálf til að takast á við lesblinduna. „Í myndinni eru sýndar mismunandi aðferðir sem lesblindir geta beitt til þess að læra. Ég segi m.a. frá minni aðferð og hvernig hún hefur hjálpað mér að ná betri árangri í námi. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum og því þarf fólk að búa til sína eigin aðferð með því að blanda saman mismunandi aðferðum."

Sylvía segir leiðarljós sitt vera að virði hvers einstaklings hvorki standi né falli með því hvort hann geti lesið eða skrifað. „Lesblindir einstaklingar eiga ekki að þurfa að berjast einir á móti kerfinu. Markmið heimildarmyndarinnar er að lesblindir einstaklingar hugsi: „Það er allt í lagi þó að ég eigi erfiðara með að læra vegna lesblindunnar og það þýðir ekki að ég geti það ekki. Það þýðir einfaldlega að ég þarf bara að leggja meira á mig en aðrir." Ég trúi því að heimildarmyndin muni hvetja þá sem eru lesblindir til dáða, auk þess að fræða fólk, hvort sem það er lesblint eða ekki, um lesblindu. Við viljum að allir fái sömu tækifæri og stuðning til þess að efla hæfileika sína og fá að blómstra."

Bjó til lærdómskerfi með hundinum sínum

Meðan á vinnslu heimildarmyndarinnar stóð áttaði Sylvía sig á því að hún vildi einnig gefa út fræðsluefni sem höfðaði til yngstu kynslóðarinnar. Því ákvað hún að skrifa barnabók sem byggð er á hundinum hennar, Oreo.

„Oreo hefur verið minn helsti stuðningur í gegnum skólagönguna. Það kann að hljóma furðulega en ég og Oreo bjuggum til lærdómsaðferð sem við köllum loppukerfi. Markhópur heimildarmyndarinnar er 12 ára og eldri en ég vildi einnig búa til efni sem getur hjálpað yngri börnum sem glíma við lesblindu. Því ákvað ég að gefa út barnabókina Oreo fer í skólann. Bókin fjallar um hundinn Oreo sem fer í skóla og uppgötvar að hann sé lesblindur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér