Þingflokksfundur Framsóknarflokksins verður haldinn í dag, þar sem fjallað verður um málefni Hrólfs Ölvissonar framkvæmdastjóra flokksins, vegna aflandsviðskipa hans í skattaskjólum. Þetta kemur fram á vef visis.is . Eftir fundinn í gær neituðu þingmenn að tjá sig um efni hans en sögðust þó líklega gera það eftir fundinn í dag.

Fjallað var ítarlega um viðskipti Hrólfs Ölvissonar framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins í gær. Í Panamaskjölunum kemur fram að hann stofnaði meðal annars aflandsfélag árið 2003 til að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki. Hrólfur var á þeim tíma stjórnarformaður Vinnumálastofnunar en hann hefur enn fremur gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn.

Innan Framsóknarflokksins hefur verið ákveðið að bjóða til miðstjórnarfundar flokksins 4. júní, þar sem tekin verður ákvörðun um hvort boðað verði til flokksþings. Þingflokkurinn ætlar einnig að funda með Hrólfi.