Fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar á að vera grundvallarkrafa í samningaviðræðum við Evrópusambandið, segir í drögum að ályktun um Evrópusambandið, sem framsóknarmenn hyggjast ræða á flokksþingi sínu á föstudag.

Í drögunum er lagt til að Ísland hefji aðildarviðræður við ESB á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi „sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar," eins og segir í drögunum.

Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt, segja framsóknarmenn, og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Flokksþingið hefst á föstudagsmorgun og er stefnt að því að afgreiða ályktun um ESB þann sama dag.