„Málinu er langt frá því að vera lokið,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í samtali við Viðskiptablaðið.

Stefnu slitastjórnarinnar gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sex meintum samverkamönnum hans og endurskoðendafyrirtækinu PWC fyrir dómstólum í New York var vísað frá í dag. Hinir stefndu voru sagðir hafa rænt Glitni innan frá og krafðist slitastjórnin 250 milljarða króna skaðabóta vegna þess.

„Dómurinn komst að þessari niðurstöðu og við virðum hana. Við töldum, í samráði við okkar lögmenn, að það hefði verið rétt að stefna málinu í New York en það var ekki niðurstaða dómsins. Þá er ekkert annað að gera fyrir okkur en að halda áfram með málið á öðrum vettvangi.“

Dómarinn setti tvö skilyrði

Steinunn segir ekki öruggt að hópnum verði stefnt á Íslandi, þó að dómarinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það væri réttur vettvangur.

„Við munum skoða hvort málshöfðun á Íslandi sé réttur vettvangur. Það er þar sem þeir (innsk. blaðam. sakborningarnir) telja að eigi að stefna þeim. Dómarinn setti tvö skilyrði fyrir frávísuninni. Annars vegar að þeir myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla, enda eru þetta menn sem eru ekki allir búsettir á Íslandi. Þeir þurfa að lýsa því yfir skriflega að þeir myndu ekki mótmæla að þeim yrði stefnt á Íslandi. Í öðru lagi að þeir myndu ekki verjast því að íslenskum dómi yrði fylgt eftir í Bandaríkjunum.“

Málinu ekki lokið og vinnan mun nýtast við næstu skref

Aðspurð hvort að annar vettvangur en íslenskir dómstólar komi til greina segir Steinunn það verða skoðað í samráði við lögmenn slitastjórnarinnar.

„Auðvitað er það þannig að þessi vinna mun nýtast okkur mjög vel. Það er búið að leggja málið upp. Við höfum verið með íslenska lögmenn sem hafa verið að aðstoða okkar bandarísku lögmenn þannig að málið verður áfram þar.“

Töluverður kostnaður fylgdi því að stefna hópnum í New York. Steinunn segist þó ekki horfa á hann sem tapað fé.

„Málshöfðun fylgir alltaf kostnaður en vinnan mun nýtast okkur.“