Fjármálaráðherra hefur frestað hækkun launa æðstu embættismanna ríkisins. Þetta er annað árið í röð sem hækkuninni er slegið á frest.

Eftir að ákvörðunarvald um laun þingmanna, æðstu embættismanna og stjórnenda ríkisstofnanna var færð frá kjararáði, með niðurlagningu ráðsins, færðist hluti þeirra undir vald fjármála- og efnahagsráðuneytisins en hinn hlutinn fær laun sem ákveðinn er með lögum. Samkvæmt lögunum skulu launin taka breytingum einu sinni á ári í samræmi við hækkun eða lækkun á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár.

Hækkuninni síðasta ár, sem átti að taka gildi 1. júlí 2019, var slegið á frest í tengslum við gerð lífskjarasamninga. Næsta ákvörðun var áætluð 1. júlí 2020 en henni hefur nú verið frestað til 1. janúar 2021 vegna þess ástand sem er í efnahagslífinu.

Ákvörðunin mun þýða að beðið verður með hækkun launa þingmanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. Laun hluta þessa hóps hafa ekki tekið breytingum frá árinu 2016.