Þegar Arion banki leyfði svissneska verktakafyrirtækinu Marti Contractors að yfirtaka verktakahlutahluta Íslenskra Aðalverktaka (ÍAV) í mars síðastliðnum var því þverneitað að fyrrum stjórnendur fyrirtækisins stæðu að baki gjörningnum.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í dag að fyrrum eigendur ÍAV hafi eignast helmingshlut í fyrirtækinu á ný . Viðskiptablaðið fjallaði á sínum tíma ítarlega um endurskipulagningu fyrirtækisins. Fréttaskýring í fjórum hlutum um málið mun birtast á vef blaðsins í dag.Þetta er annar hluti hennar.

Reyndu í nokkra mánuði að komast yfir fyrirtækið

Gunnar Sverrisson og Karl Þráinsson, forstjóri og aðstoðarforstjóri ÍAV, höfðu reynt að eignast fyrirtækið að nýju í nóvember 2009 með því að gera Arion banka tilboð í það í samkurli við svissneska verktakafyrirtækið Marti Constructions.

Arion banki hafnaði hins vegar tilboðinu og tók í kjölfarið yfir Drög ehf., móðurfélag ÍAV. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að tilboðið hafi einfaldlega ekki þótt nógu hátt. Gunnar og Karl voru báðir í eigendahópi ÍAV áður en að Arion tók fyrirtækið yfir. Þeir héldu báðir störfum sínum eftir yfirtöku Marti.

Marti gerði Arion síðan nýtt tilboð í upphafi árs 2010 sem bankanum þótti álitlegra. Viðskiptablaðið greindi síðan frá því í byrjun mars síðastliðnum að Marti hefði tekið að fullu yfir rekstur verktakahluta ÍAV en að fasteignarþróunarverkefni sem fyrirtækið vann á eigin reikning rynni til Arion banka.

Stjórnendurnir höfnuðu því að standa á bakvið tilboðið

Vefmiðillinn Pressan greindi skömmu síðar frá því að Gunnar og Karl stæðu að baki kaupum Marti á verktakahluta ÍAV og þeir myndu halda völdum og áhrifum sínum innan fyrirtækisins. Gunnar sagði þetta rangt. Þremur mánuðum síðar keyptu hann og Karl helminginn í IP Verktökum, félagi sem stofnað var utan um verktakahluta ÍAV.