Nú liggur fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um ársreikninga. Með frumvarpinu er verið að innleiða ákvæði reglugerðar ESB nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Með innleiðingunni verða tiltekin félög skylduð til að haga reikningsskilum sínum í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Skyldan nær aðallega til samstæðureikninga félaga sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES.

Framangreindum félögum verður jafnframt gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga frá og með reikningsári sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar. Öðrum félögum verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við reikningsskil sín, en verður hins vegar heimilt að beita þeim, ef þau uppfylla tiltekin stærðarmörk. Félögum sem hvorki hafa skyldu til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum né heimild skulu fara eftir öðrum ákvæðum ársreikningslaga við gerð reikningsskila sinna.

Frumvarpið kveður einnig á um innleiðingu á tilskipun ESB nr. 51/2003, um breytingu á tilskipunum ESB, um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.

Með þeirri tilskipun hefur Evrópusambandið lokið heildarendurskoðun
á reglum um ársreikninga. Með ákvæðum tilskipunarinnar, sem
gert er ráð fyrir að verði innleidd í íslenskan rétt, verða afnumin þau ákvæði
sem stangast á við innleidda alþjóðlega reikningsskilastaðla. Frumvarpið
miðar einnig að því að tryggja að allir valkostir reikningsskila sem tiltækir
eru samkvæmt settum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum séu til staðar fyrir
önnur félög.