Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að þríbólusettur maður, sem sætt hefur sóttkví frá 11. desember á liðnu ári, skuli áfram sæta sóttkví, til miðnættis 13. janúar. Skömmu eftir að úrskurður féll breytti heilbrigðisráðherra reglum um sóttkví sem fól í sér verulegar tilslakanir á sóttkví þríbólusettra.

Maðurinn hefur ítrekað verið skimaður en aldrei greinst smitaður, þrátt fyrir ítrekuð smit á heimili mannsins. Taldi maðurinn ákvörðun um sóttkví ólögmæta með vísan til þess að ákvörðunin byggði eingöngu á staðhæfingum sóttvarnalæknis án sönnunar, ætti sér ekki fullnægjandi stoð í sóttvarnalögum og að brotið hafi verið gegn reglum um málsmeðferð. Taldi hann ákvörðunina brjóta gegn réttmætis-, jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og að hvorki hafi verið gætt fyrirmæla sóttvarnalaga né stjórnsýslulaga og því hafi sóttvarnalæknir með ákvörðun sinni brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum hans.

Yfirvofandi hætta á nýrri bylgju

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að það sé mat sóttvarnalæknis að nauðsynlegt sé að bregðast við yfirvofandi hættu á nýrri bylgju COVID-19 faraldursins og vernda lýðheilsu, þannig væri sóttkví mannsins nauðsynleg.

Ekki var fallist á að ákvörðunin hefði brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, stjórnarskrárvörðum réttindum varnaraðila né öðrum reglum sem maðurinn vísaði til í málatilbúnaði sínum. Þannig var það meðal annars ekki talið fela í sér brot gegn jafnræðisreglu að í reglum um sóttkví hafi ekki gerður greinarmunur á bólusettum og óbólusettum. Í því samhengi bar sóttvarnalæknir því við að þríbólusettir einstaklingar geti smitað aðra og sóttkvíin því nauðsynleg.

Skjótt skipast veður í lofti

Athygli vakti að á sama tíma og mál þetta var til meðferðar lýsti sóttvarnalæknir því opinberlega yfir að til skoðunar væri að létta sóttkví hjá þríbólusettum. Stuttu eftir að úrskurður Landsréttar féll í dag, þar sem tekið var undir sjónarmið sóttvarnalæknis um nauðsyn sóttkvíar mannsins, slakaði heilbrigðisráðherra á reglum um sóttkví fyrir þríbólusetta í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Breyting reglnanna öðlaðist gildi við birtingu þeirra.

Um 8 þúsund manns eru nú í sóttkví og 10 þúsund í einangrun. Þessi mikli fjöldi hefur leitt til töluverðrar röskunar í atvinnulífinu og hefur víða verið kallað eftir tilslökunum á reglum um sóttkví. Þannig benti Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, til að mynda á að reglur um sóttkví væru almennt vægari meðal nágrannaríkja Íslands í aðsendri grein í Viðskiptablaði vikunnar.