Morgunkorn Glitnis gerir úrvalsvísitöluna að umtalsefni í dag. Þar segir að grænar tölur sé byrjaðar að sjást í Kauphöllinni á ný eftir miklar lækkanir undanfarnar vikur. Úrvalsvísitalan hefur hækkað undanfarna tvo daga eftir nánast linnulausa lækkunarhrinu frá því í upphafi nóvember. Miklar hækkanir í Bandaríkjunum Fylgni íslenska hlutabréfamarkaðarins við erlenda markaði hefur verið mjög áberandi síðustu vikur en lækkunarhrina markaðarins hér heima í nóvembermánuði hefur nær alfarið stjórnast af erlendum áhrifum, segir í Morgunkorninu. Vænta má að aftur dragi úr fylgni við erlenda markaði þegar aukið jafnvægi kemst á hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði.

Miklar hækkanir urðu á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í gær en Dow Jones vísitalan hækkaði um 2,55%, Nasdaq um 3,18% og S&P um 2,86%. Hækkanir á mörkuðum í Bandaríkjunum síðustu tvo daga eru þær mestu sem þar hafa sést innan tveggja daga í fimm ár. Það sem veldur góðri stemmningu í Bandaríkjunum er fyrst og fremst auknar væntingar um að Seðlabankinn lækki vexti í desember. Aðstoðarseðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, Donald Kohn, gaf tilefni til þessara væntinga í gær þegar hann sagði útlit vera fyrir að umrót á fjármálamörkuðum gæti hægt meira á hagvexti í Bandaríkjunum en áður hefur verið talið og að auknar líkur væru á fleiri stýrivaxtalækkunum. Næsti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabanka Bandaríkjanna verður þann 11. desember næstkomandi. Óvissan heldur áfram Þrátt fyrir að viðsnúningur hafi orðið á mörkuðum síðustu daga er enn mikil undirliggjandi óvissa til staðar. Til að mynda hefur mikil hækkun í Bandaríkjunum í gær ekki leitt til verulegrar hækkunar á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag. Greining Glitnis telur að talsverðrar óvissu muni gæta allt til ársloka en að verðlagning markaðarins muni leita jafnvægis á næstunni. Grunnrekstur flestra félaganna í kauphöllinni er sterkur og við sjáum marga spennandi fjárfestingakosti fyrir langtímafjárfesta. Á óvissutímum þarf hins vegar oft lítið til að hreyfa markaði og því má enn búast við töluverðum sveiflum framundan, segir í Morgunkorni Glitnis.