Að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga, hefur fyrirtækið ekki ennþá lent í vandamálum með innflutning vegna þeirra erfiðleika sem nú ríkja á gjaldeyrismörkuðum.

Finnur benti á að stærsti hluti söluvara þeirra væri matvara og 70% af matvörunni væri innflutt framleiðsla.

„Engu að síður eru þetta verulegar upphæði sem við þurfum að flytja inn og erum að kaupa erlendis frá. Það er ekki spurning.”

Finnur sagðist vissulega kannast við sögusagnir um að það væri að þurrkast upp gjaldeyrir og þeir hafa orðið varir við að það er að hafa áhrif á innflutningsfyrirtækin.

„Fyrirtækin eru að missa lánstraust úti og það hafa verið feldar niður ábyrgðir í innkaupum. Þetta er víða og Ísland virðist  vera að lenda illa í umræðunni.”

Finnur sagði að erlendir birgjar keyptu sér vanalega tryggingar í Evrópu og svo virtist vera að þeir sem selja slíkar tryggingar hafi tekið Ísland út úr bókunum hjá sér.

Finnur sagði að þetta hefði ekki verið vandamál áður og sum fyrirtæki með áratugasögu hafa verið að lenda í þessu í fyrsta sinn núna. Hann sagðist vita til um fjögur svona tilvik. Ef ekki fást tryggingar verður að staðgreiða vöruna eða innflytjandinn verður sjálfur að koma með tryggingar.

Finnur sagði að hin hraða lækkun krónunnar hefði einnig verulegan vanda í för með sér fyrir fyrirtæki með greiðslufrest.

„Mikið af fyrirtækjum sem eru í reglulegum viðskiptum við erlenda aðila og eru kannski með greiðslufrest eru að lenda í vanda núna. Þeir sem eru með 30 eða 40 daga greiðslufrest og eru búnir að fá vöruna og selja hana þurfa núna að borga hana þegar miklu minna fæst fyrir krónuna. Þetta er svakalegt áfall fyrir marga sem eru að flytja inn vörur og er verst fyrir þá sem eru með greiðslufrest því ekki hefur verið hægt að kaupa tryggingar í framvirkum samningum. Innflytjendur sem ekki hafa getað fest sér gengið eru að lenda í verulegum vandamálum.”