Stjórn Boeing íhugar nú að láta stöðva tímabundið framleiðslu 737 Max flugvéla félagsins sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars. Seattle Times greinir frá.

Búist er við að greint verði frá ákvörðun félagsins síðar í dag eða á þriðjudagsmorgun Vestanhafs.

Ef af verður, er ráðgert að framleiðsla stöðvist þar til bandarísku flugmálayfirvöldin FFA taka ákvörðun um að hleypa vélunum aftur í loftið. Nú er búist við að það geti gerst um miðjan febrúar eða í byrjun mars.

Á föstudaginn bað forstjóri FAA um að forstjóri Boeing myndi hætta að gefa út yfirlýsingar um hvenær von væri á Max flugvélunum aftur í háloftin . Kyrrsetningin hefur varað mun lengur en stjórnendur Boeing bjuggust við í upphafi. Icelandair gerir ekki ráð fyrir flugvélunum inn í sitt leiðakerfi fyrr en í fyrsta lagi þann 1. mars 2020.