Seðlabanki Íslands er að soga til sín allt lausafé á íslenskum markaði í þeim tilgangi að halda vöxtum hér háum. Þannig vill Seðlabanki fá til landsins  erlent lánsfjármagn og erlenda fjárfesta  á sama tíma og hann sogar til sín allt íslenskt lausafé svo að tryggt sé að því verði örugglega ekki fjárfest á Íslandi.

Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi GAM Management (GAMMA), þar sem fjallað er um fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans sem birt var í gær.

Í fundargerð nefndarinnar er fjallað um mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar en þar kemur fram að nefndarmenn hafi bent á að ef óvissunni yrði ekki eytt á næstunni gætu áhrifin takmarkað aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og dregið úr líkum á nýrri beinni erlendri fjárfestingu á næstu misserum. Þetta myndi leiða til minni fjárfestingar og meira atvinnuleysis en í grunnspánni og meiri samdrætti landsframleiðslu, þar sem öll ný fjárfestingarverkefni þyrfti þá að fjármagna með innlendum sparnaði sem aðeins væri hægt að útvega með því að draga enn frekar saman einkaneyslu og ríkisútgjöld.

Í fréttabréfi GAMMA er spurt hvort ekki sé sláandi mótsögn í þessum aðgerðum. Vert sé að benda á að erlendir aðilar eigi um 246 milljarða króna í stuttum ríkisbréfum og ríkisvíxlum – sem ekki séu gjaldeyrisskapandi fjárfestingar.

„Ekki fæst heldur séð hvernig háir vextir stuðla að því að eigendur þessara skammtímafjárfestinga hafi áhuga á því að færa sig í langtímafjárfestingar og því síður er skiljanlegt hvers vegna þarf háa vexti til að halda þessum krónum á Íslandi í ljósi þess að hér eru gjaldeyrishöft, sem hafa nú þá virkni að fæst bendir til  að krónan myndi veikjast við lægra vaxtastig en nú er,“ segir í fréttabréfi GAMMA.

„Sumir skilgreina þessa erlendu fjárfestingu sem „óþolinmótt fjármagn“ og má rökstyðja með einföldum hætti að háir vextir stækki þetta ,,óþolinmóða fjármagn” hratt og sé því ekki að hjálpa til heldur gera illt verra í framtíðinni.“   Þá lítur GAMMA svo á að Seðlabankinn vilji halda áfram „sama leiknum og undanfarin ár,“ eins og það er orðað í fréttabréfinu, „að laða til sín erlent skammtímafjármagn í formi „vaxtamunaviðskipta“ (e. carry trade). Þetta fjármagn skapar lítinn framtíðarhagvöxt og er ekki fjárfest í verkefnum sem skapa nauðsynlegan gjaldeyri í framtíðinni fyrir íslenskt þjóðarbú.“ Mótsagnakennd og illskiljanleg rök fyrir óbreyttum vöxtum

Þá segir í fréttabréfinu að annað atriði í fundargerðinni veki bæði í senn undrun og áhyggjum. Þar er vísað til þess að einn nefndarmaður peningastefnunefndarinnar hafi verið andvígur tillögu um lækkun stýrivaxta og kallað eftir óbreyttum vöxtum. Í fundargerð nefndarinnar segir að þessi nefndarmaður hélt því fram að óvissa hefði stóraukist í kjölfar þeirrar ákvörðunar forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar og því lækkað þann áhættuleiðrétta vaxtamun við útlönd sem væri nauðsynlegur til að styrkja krónuna. Það hefði því verið álit hans að þörf væri á að leysa þá deilu áður en hægt væri að halda áfram að draga úr aðhaldi peningastefnunnar.

„Þetta er bæði mótsagnakennt og illskiljanlegt,“ segir í fréttabréfi GAMMA.

„Í ljósi þess að krónan hefur ekki veikst við þá staðreynd að lánshæfi ríkissjóðs sé komið í ruslflokk í fyrsta sinn, bendir það varla til þess að háir vextir og skuldaáhættuálög séu til þess fallin að hafa áhrif á gengi krónunnar til skamms tíma. Þvert á móti hefur krónan styrkst á móti evru sem er langveigamesta myntin í fjármagnsflæði til og frá Íslandi.“

Þá segir í fréttabréfinu að lesa megi úr orðum peningastefnumeðlimsins að um sé að ræða einhvers konar ,,refsingu” sem íslenska þjóðin verður að þola með háum vöxtum fyrir að hafa ,,skapað” óvissu um Icesave lánið, og að sama skapi ,,verðlaun” sem krónubréfaeigendur fá þá á móti fyrir þann vanda sem við höfum bakað þeim.

„Lægri vextir myndu skila sér í auknum skuldbreytingum í óverðtryggðar krónur samhliða höfuðstólsleiðréttingum fyrirtækja og heimila, auka kaupmátt heimila og minnka kostnað fyrirtækja og draga á sama tíma úr verðbólguþrýstingi,“ segir í fréttabréfi GAMMA.

„Slíkar skuldbreytingar eru ein af frumforsendum fyrir því að hægt sé að fleyta krónunni seinna meir og Seðlabankinn er því að vinna gegn eigin markmiði um fleytingu krónunnar, því án skuldbreytinga á erlendum og verðtryggðum lánum fyrirtækja, verður krónunni ekki fleytt.“

Þá segir jafnframt:

„Óþægilega stór hluti peningastefnunefndar hangir eins og hundur á roði á þeirri hugmynd að óvissu varðandi Icesave og hækkandi skuldatryggingarálag þurfi að bæta upp með hærri vöxtum þegar engar raunverulegar vísbendingar eru um slíkt. Þvert á móti bendir allt til þess að lægri vextir séu algjörlega nauðsynlegir bæði til reisa við hagkerfið og skapa skilyrði fyrir fljótandi krónu, gefið að slíkt sé yfir höfuð raunhæft.“

Þá segir að Seðlabankinn verði að fara að gera upp við sig hvort hann ætli sér að aflétta höftum með háa vexti eina að vopni eða búa svo í haginn að íslenskt hagkerfi sé orðið nægjanlega sterkt til að trú fjárfesta, innlendra sem erlendra, á íslensku hagkerfi sé næg til að aflétting hafta takist.

„Sú stefna að halda vöxtum háum við núverandi aðstæður horfir einfaldlega framhjá öllum þeim brýnu ástæðum sem knýja á lægri vexti, á meðan ástæður meðlima peningastefnunefndar fyrir háum vöxtum eru einfaldlega illa rökstuddar,“ segir í fréttabréfi GAMMA.