Íslendingar vita hvernig þekkja má það besta og vefa það inn í eigið samfélag, fullyrðir greinarhöfundur breska dagblaðsins The Observer í viðamikilli og einstaklega jákvæðri úttekt á íslensku þjóðfélagi sem birtist í gær.

Yfirskrift greinarinnar er: „Engin furða að Íslendingar eru hamingjusamasta þjóð í heimi.“

Blaðamaðurinn John Carlin ræðir þar við ýmsa fulltrúa íslenskrar menninga, stjórnmála og atvinnulífs og bera þeir landi og þjóð afbragðsgóða söguna.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hittir hann í „gufulöðrandi almenningssundlaug” og lýsir honum sem afslöppuðum náunga og tekur fram að hvergi sé lífvörð að sjá.

„Ég held að við höfum blandað saman því besta frá Evrópu og Bandaríkjunum, norræna velferðarkerfinu saman við bandaríska frumkvöðlaandann,” hefur blaðamaður eftir Geir.

„Við höfum mörg hver búið í Bandaríkjunum og numið þar ... og það sem við höfum fengið frá Bandaríkjamönnum og uppgötvað að við deilum með þeim, er það viðhorf að allt sé mögulegt, svo lengi sem menn vinni að því hörðum höndum.”

Við erum líka Afríkubúar!

Á meðal annarra viðmælenda Carlins má nefna Svöfu Grönfeldt, rektors Háskólans í Reykjavík, og ræða þau um að ekki aðeins megi finna manneskjuleg viðhorf Norðurlandanna hjá Íslendingum og drifkraft Bandaríkjamanna, heldur virðist þeir búa yfir eitthvað af lífsnautnahyggju Suður-Evrópubúa.

Varpar blaðamaðurinn fram þeirri fullyrðingu að í fari Íslendinga finni hann einhvers konar afríska eðliskosti sem skorti hjá öðrum Evrópubúum, einkum með tilliti til fjölskyldugerðarinnar og samhjálpar innan stór-fjölskyldunnar.

Kveður hann Svöfu hafa fallið tilgátan vel og segir: „Já! hrópaði framkvæmdastjórinn föli í ánægjutóni. „Við erum líka Afríkubúar!”

Ókeypis menntun og heilsugæsla áfram

Í greininni er m.a.  rætt um auknar skatttekjur ríkissjóðs undanfarin misseri þrátt fyrir tiltölulega lágar álögur á fyrirtæki og einstaklinga. Þá hafi íslenskir bankar hafi verið áhættusæknir og bjartsýnir þátttakendur á alþjóðamarkaði og menn hafi áhyggjur af að þeir hafi seilst of langt.

„Verðhækkanir á mat og olíu fá sömu umfjöllun og annars staðar í heiminum, en samt sem áður bendir ekkert til að ógn steðji að íslenska hagkerfinu,” segir blaðamaður Observer.

„Ekki aðeins munu Íslendinga halda áfram að fá ókeypis fyrsta flokks menntun heldur og ókeypis fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, þar sem einkarekstur í heilbrigðisþjónustu einskorðast aðallega við munaðarþjónustu, svo sem lýtaaðgerðir.”

Lesa má greinina í heild sinni hér.