Framkvæmdarstjóri EMI Music, Alain Levy, lýsti því yfir í dag að geisladiskurinn væri dautt form og að tónlistarútgefendur muni ekki geta selt geisladiska án þess að bjóða upp á aukaefni, segir í frétt Dow Jones.

Levy lýsti þessu yfir í ávarpi við London Business School og sagði að um 60% þeirra sem keyptu geisladisku hlæðu þeim inn á tölvur sínar á stafrænt form.

Hann segir þó að enn sé til staður fyrir efnislega útgáfu þar sem ólíklegt sé að menn muni gefa tengdamæðrum sínum niðurhal á iTunes í jólagjöf.

Levy segir þó að stöðugt verði að uppfæra geisladiskinn sem geri hann meira aðlaðandi fyrir neytendum og að í byrjun næsta árs verði ekkert af útgefnu efni EMI á geisladiskum án aukaefnis.