*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 21. september 2016 17:59

Gera athugasemdir við umfjöllun Viðskiptaráðs

Fulltrúar Landspítalans segja umfjöllun Viðskiptaráðs endurspegla þekkingar- og skilningsleysi á rekstri, framleiðni og gæðaviðmiðum í heilbrigðisþjónustu.

Ritstjórn
Landspítalinn
Haraldur Guðjónsson

Landspítalinn gerir verulegar athugasemdir við umfjöllun Viðskiptaráðs um skýrslu McKinsey & Company. Þetta kemur fram í tilkynningu frá spítalanum, en Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um umfjöllun ráðsins.

Fulltrúar spítalans segja Viðskiptaráð horfa fram hjá þeirri megin niðurstöðu skýrslunnar að kostnaður við legudaga á Landspítala séu umtalsvert lægri en á samanburðarsjúkrahúsum, auk þess sem afköst starfsmanna séu mun meiri. Spítalinn segir Viðskiptaráð því álykta ranglega um þróun launakjarastarfsmanna spítalans.

Í tilkynningunni segir m.a:

"Höfundur pistils Viðskiptaráðs virðist ekki vera kunnugt um þær breytingar sem orðið hafa á heilbrigðisþjónustu síðustu árin með tilfærslu þjónustu af legudeildum á dagdeildir og áhrifa þessa á rekstrarkostnað og þjónustu. Þá virðist sem höfundur hafi ekki aflað sér upplýsinga um tilflutning verkefna frá öðrum stofnunum til Landspítala, né gera sér grein fyrir áhrifum lýðfræðilegra þátta á heilbrigðisþjónustu í landinu."

Segja má að Landspítalinn líti það alvarlegum augum að Viðskiptaráð fjalli með þessum hætti um flókna starfsemi stofnunarinnar og hefur spítalinn því óskað eftir fundi með formanni stjórnar Viðskiptaráðs.

Horft fram hjá kostnaði og afköstum

Í tilkynningu Landspítalans segir að Viðskiptaráð horfi fram hjá þeirri staðreynd að kostnaður á hvern legudag sé um 50% lægri en á sænskum samanburðarsjúkrahúsum, sem tiltekin eru í skýrslunni, að teknu tilliti til verðlags. Í samanburði sem þessum telur spítalinn mikilvægt að hafa íhuga að afköst starfsmanna séu um 95% meiri en hjá umræddum samanburðarsjúkrahúsum.

Segja útreikninga ráðsins ranga

Fulltrúar spítalans eru ósáttir við að Viðskiptaráð komi að þeirri niðurstöðu að þróun launakjara starfsmanna spítalans hafi verið önnur og mun jákvæðari en almennt gerist í samfélaginu. Niðurstaða Viðskiptaráðs var fengin með því að taka upplýsingar um launakostnað og fjölda stöðugilda úr ársreikningum Landspítala og reikna þannig meðallaun á hvert stöðugildi árin 2012 til 2015.

Þar sem meiriháttar verkföll áttu sér stað árin 2014 og 2015, lagðist reglubundin starfsemi að miklu leyti af, þó svo að nauðsynlegri þjónustu hafi að sjálfsögðu verið sinnt. Á verkfallstíma fækkaði því reiknuðum ársverkum vegna vaktþjónustu, ásamt því sem breytileg vinna utan dagvinnutíma lækkaði lítið sem ekkert.

Spítalinn segir útreikninga ráðsins því ranga, þar sem meðalkostnaður á hvern starfsmann hækkar óeðlilega mikið á verkfallsárunum. Þá er árið 2015 sérstaklega nefnt, þar sem stórir hópar heilbrigðisstarfsmanna voru í verkföllum til lengri tíma.

Umfjöllun um afköst og gæði á villigötum

Í yfirlýsingu spítalans, telja fulltrúar hans óskiljanlegt hvernig hægt sé að komast að því að afköst hafi minnkað og gæði staðnað. Spítalinn segir framsetningu ráðsins því í besta falli endurspegla þekkingar- og skilningsleysi á rekstri, framleiðni og gæðaviðmiðum í heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslunni fjallar McKinsey ítarlega um þróun afkasta og eru afköst á Landspítala allt að 95% meiri en á samanburðarsjúkrahúsum í Svíþjóð. Sú afkastaminnkun sem þó átti sér stað, má að mati spítalans og skýrslunnar rekja til fækkun sjúklinga á legudeildum, sem fluttust yfir á dagdeildir.

Biðlistar

Í skýrslu McKinsey kemur fram að biðlistavandi hafi myndast á Landspítala í kjölfar niðurskurðar í kreppunni en að jafnframt hafi þeir lengst síðustu ár. Þó svo að það sé raunin, telja fulltrúar Landspítalans Viðskiptaráð gleyma þeirri staðreynd að eftirspurn eftir þjónustu hafi vaxið umtalsvert hraðar en fjárframlög.

Opinber útgjöld á föstu verðlagi til Landspítala árið 2015 voru nánast hin sömu og árið 2002, talsvert minni en árið 2003 og miklum mun minni en árið 2007. Það liggur sem sagt fyrir, í ársreikningum Landspítala svo og ríkisreikningi, að sjúkrahúsið var rekið, hallalaust, árið 2015 fyrir svipað opinbert fjármagn, á föstu verðlagi, og í byrjun aldarinnar en fyrir verulega minna fjármagn en í góðærinu. Í tilkynningunni segir einnig:

"Umfang þjónustunnar er samt miklu meira, enda hefur spítalanum verið falin mörg viðbótarverkefni frá aldamótum, svo sem rekstur réttargeðdeildar og þeirrar starfsemi sem áður var veitt af St.Jósefsspítala í Hafnarfirði. Landspítali er að sjálfsögðu ekki sáttur við að bið eftir þjónustu lengist. Það er hins vegar því miður óhjákvæmilegt meðan fjárframlög taka ekki mið af mannfjöldaþróun, öldrun þjóðarinnar eða öllum þeim verkefnum sem spítalanum eru ætluð. Það er í sjálfu sér gott að Viðskiptaráð beini sjónum sínum að þróun biðlista eftir þjónustu. Enn betra væri ef ráðið kynnti sér viðeigandi upplýsingar í því sambandi."