IFS Greining, Greining Íslandsbanka og Hagfræðideild Landsbanka gera allar ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum, en Seðlabankinn birtir ákvörðun um stýrivexti í fyrramálið. IFS segir að 12 mánaða verðbólga hafi hjaðnað lítillega en krónan hafi veikst um 1% frá síðustu vaxtaákvörðun. Verðbólgan lækkaði úr 11,3% í júlí í 10,9% í ágúst og IFS segir að miðað við 10,9% verðbólgu séu raunvextir 1,1% og þeir hafi að meðaltali verið 1% frá áramótum.

Vextir á viðskiptareikningum skipta mestu

Greining Glitnis segir að þótt stýrivextir séu nú 12% skipti mestu um aðhald peningastefnunnar að vextir á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum séu 9,5%. Þá segir að innlánsstofnanir hafi verið að lækka innlánsvexti sína nokkuð hratt undanfarið og þeir séu nú komnir umtalsvert undir innlánsvexti Seðlabankns. Engu að síður vaxi innlán, enda fáir kostir til ávöxtunar. Lækkandi vextir á innlánsreikningum innlánastofnana hafi dregið úr ábata af krónueignum og þar með þeirri stoð sem háir innlánsvextir Seðlabankans eigi að vera fyrir gengi krónunnar. að þessu leyti hafi aðhald peningastefnunnar því minnkað enda hafi verið viðraðar hugmyndir um hækkun innlánsvaxta á síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar.

Vaxtalækkun ekki fyrr en á 2. fjórðungi 2010

Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn byrji ekki að lækka vexti fyrr en á öðrum ársfjórðungi á næsta ári og lækki þá „í nokkrum þéttum en frekar varfærnum skrefum“. Vextir verði komnir í 7,5% í lok næsta árs og um mitt ár 2011 verði þeir komnir niður í 6%.

Inngrip styðja við krónuna

Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans segir flest benda til að stýrivextir verði óbreyttir og að innlánsvextir verði jafnvel hækkaðir lítillega. Hagsjá segir að gengi krónunnar sé tímabundið markmið peningamálastefnu við núverandi aðstæður. Krónan hafi veikst gagnvart evru en evran hafi styrkst gagnvart Bandaríkjadal og bresku pundi. Krónan hafi styrkst gagnvart dal og pundi að undanförnu en það hafi fyrst og fremst verið vegna inngripa Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Í águst hafi inngripin numið 1,2 milljörðum króna og 1,4 milljörðum í júlí.

Fyrsta vaxtaákvörðun undir stjórn Más

Loks segir Hagsjá að ekki megi gera lítið úr því að þetta sé fyrsta vaxtaákvörðunin undir stjórn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Í ljósi fyrri yfirlýsinga nefndarinnar og orða Más í viðtali sé ólíklegt annað en fyrri vaxtastefnu verði haldið.