Fríverslunarsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Egyptalands öðlaðist gildi gagnvart Íslandi í gær, 1. ágúst. Ísland og Egyptaland gerðu einnig með sér tvíhliða samning um óunnar landbúnaðarafurðir sem hefur í för með sér að tollar á tilteknum landbúnaðarvörum eru lækkaðir eða felldir niður. Ísland fær t.d. markaðsaðgang fyrir lifandi hross til Egyptalands og 2000 tonna tollkvóta fyrir lambakjöt.

Samningurinn var undirritaður í Davos í Sviss í janúar á þessu ári og lagður fyrir Alþingi í kjölfarið og fullgiltur af Íslands hálfu 7. júní síðastliðin að því er kemur fram í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.

Samningaviðræðurnar tóku tíu ár og lauk í október 2006. Samningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta. Samkvæmt samningnum fella Egyptar niður tolla á vörur, aðrar en landbúnaðarvörur, í áföngum. Þá felur samningurinn í sér tollkvóta fyrir flestar mikilvægustu sjávarafurðir Íslands. Kvótarnir stækka eftir ákveðnu fyrirkomulagi á sex ára tímabili sem að lokum leiðir til fullrar fríverslunar. Af þeim sökum standa vonir til þess að samningurinn muni skapa aukin tækifæri fyrir viðskipti með sjávarafurðir milli Íslands og Egyptalands. Þá kann Egyptaland einnig að vera áhugaverður markaður fyrir aðrar útflutningsvörur Íslendinga. Einnig eru í samningnum ákvæði um vernd hugverkaréttinda, fjárfestingar, þjónustustarfsemi, greiðslu- og fjármagnsflutninga, samkeppnismál, tækni- og fjárhagsaðstoð, stofnanaákvæði, samráð og lausn ágreiningsmála.