*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 4. nóvember 2011 10:38

Gísli Hauksson: Krónunni fleytt með korki og kút

Ólíklegt að krónan muni fljóta nokkurn tíma aftur. Forstjóri Kauphallarinnar segir mikilvægt að hún þjóni atvinnulífinu.

Ritstjórn
Gísli Hauksson vill ekki sjá krónuna.
Axel Jón Fjeldsted

Krónan mun aldrei fljóta aftur með sambærilegum hætti og á síðasta áratug. Þetta er mat Gísla Hauksson, hagfræðings hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA.

Gísli sagði á fundi Viðskiptaráðs um peningastefnuna hér á landi að þótt sér hugnist ekki að hafa krónuna sem þjóðargjaldmiðil þá virðist allt stefna í að hún verði það áfram.

„Eftir tvö til þrjú ár verður fín athöfn í Seðlabankanum þar sem því verður lýst yfir að krónan sé farin að fljóta. Það verður með endalausum fyrirvörum; ákveðnir aðilar fá ekki að taka erlend lán, Tóbin-skattur á innflæði og útflæði og svo framvegis. Krónan verður áfram í höftum þótt menn kalli hana fljótandi," sagði Gísli og rifjaði upp teikningu eftir Halldór Baldursson sem sýndi krónuna fljóta með korki og kút.

„Ég óttast að það sé kerfið sem við erum að horfa fram á. Mér hugnast það ekki. Ég tel samt að krónan hafi lokið sínu hlutverki og græt það ekki ef hún hverfur á braut.”

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, var á öðru máli. Hann taldi mögulegt að fleyta krónunni á ný með þeim hætti að hún þjóni atvinnulífinu: „En ef við ætlum að opna fyrir fjármagnsflutninga þá er mikilvægt að hverfa frá föstu verðbólgumarkmiði og koma í veg fyrir að fjárfestar fái tilfnningu fyrir því að hægt sé að stilla Seðlabankanum upp við vegg."

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði bankann vera að skoða alla möguleika í gjaldeyrismálum. Verið sé að vinna skýrslu sem koma muni út á næsta ári.