Í nýrri skýrslu greiningardeildar bandaríska bankans Merill Lynch segir að áhætta Glitnis hafi aukist undanfarið og telur greiningardeildin að álag á skuldatryggingum Glitnis á eftirmarkaði endurspegli ekki raunverulega stöðu Glitnis. Álagið ætti að vera hærra eða í takt  við álag á skuldatryggindum Landsbankans að mati sérfræðinga Merill Lynch. Álag á skuldatryggingum Landsbankans er að jafnaði 10 punktum yfir skuldaálagi Glitnis sem hefur verið í kringum 33 punkta undanfarnar vikur.

Viðsnúningur hefur orðið á mati Merill Lynch á Glitni en greiningardeildin hefur hingað til talið stöðu Glitnis betri en hinna bankanna tveggja. Í mars síðastliðinn kom út skýrsla frá bankanum þar sem staða Glitnis var álitinn mun betri en hinna bankanna vegna minna hlutfalls gengishagnaðar og heildartekjum og þá kom Glitnir einnig best út úr álagsprófi sem Merill Lynch framkvæmdi á öllum bönkunum.

Ástæða viðsnúningsins nú er að Merill Lynch telur Glitni hafa orðið áhættusæknari á undanförnum mánuðum meðal annars vegna aðkomu sinnar að kaupum Baugs á House of Fraser og sölunni á Icelandair.

Þá hrósar Merill Lynch Kaupþing banka í skýrslunni fyrir að hafa brugðist við áhyggjum fjárfesta og gert breytingar þar að lútandi. Merill Lynch hefur þó ennþá áhyggjur að undirliggjandi rekstur Kaupþings gangi ekki nógu vel og skili bankanum ekki nógu miklum hagnaði.

"Landsbankinn er ennþá uppáhalds íslenski bankinn okkar," segir í skýrslunni en sérfræðingar Merill Lynch meta bankanna út frá  frammistöðu þeirra á eftirmarkaði fyrir skuldatryggingar. Sérfræðingar Merill Lynch telja að stjórnendur Landsbankans hafi brugðist rétt við þeirri neikvæðu umræðu sem var áberandi um bankanna í upphafi árs og séu nú að uppskera í takt við það.

Að öðru leyti er Skýrsla Merill Lynch á jákvæðari nótum en skrif bankans frá því fyrr á þessu ári. "Framtíðin er bjartari fyrir bankanna nú en áður enda hefur vindáttin  breyst á alþjóðlegum mörkuðum og bankarnir eiga ekki eins erfitt uppdráttar og áður," segir í skýrslu Merill Lynch