Afkoma norska olíu- og álrisans Norsk Hydro var góð fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt tilkynningu félagsins í morgun. Rekstrartekjur félagsins jukust um 17,2% og námu 1.234 milljörðum króna á tímabilinu. Hagnaðurinn eftir skatta nam 94,5 milljörðum fyrstu níu mánuðina og stefnir í talsvert betri útkomu fyrir árið 2004 í heild m.v. fyrra ár. Félagið, sem nú leggur megin áherslu á olíu- og áliðnaðinn, hefur notið góðs af hækkandi olíuverði á árinu auk þess sem olíuframleiðsla fyrirtækisins hefur haldið áfram að aukast. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að álverð er einnig hátt og kemur félaginu til góða, verðið hefur hækkað um 12% mælt í norskum krónum síðastliðið ár.

Norska ríkið nýtur góðs af góðri afkomu Norsk Hydro í tvennum skilningi. Annars vegar greiða olíufyrirtækin (Norsk Hydro og Statoil) 78% skatt af hagnaði vegna olíustarfsemi til ríkisins á meðan almennur skattur á fyrirtæki er 28%. Líta má á mismuninn, 50%, sem auðlindaskatt. Hins vegar fær norska ríkið greiddan arð vegna 44% eignarhlutar í Norsk Hydro.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.