*

fimmtudagur, 22. október 2020
Innlent 6. september 2017 13:31

Goldman Sachs með atkvæðarétt í Arion

Af þeim fjórum aðilum sem keyptu í Arion banka í mars hefur einungis Goldman Sachs atkvæðarétt fyrir sín bréf. Vogunarsjóðirnir bíða hæfismats eða markaðsskráningar.

Ritstjórn

Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, sem keypti 2,6% eignarhlut í Arion banka fyrr á árinu, fer með atkvæðarétt í bankanum.

Hins vegar fylgir ekki atkvæðaréttur eignarhlutum vogunarsjóðanna þriggja sem keyptu á sama tíma í bankanum, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma keyptu Attestor Capital, Taconic Capital og Och-Ziff Capital, samanlagt 26,6% hlut í bankanum.

Í kjölfar kaupa sjóðanna þriggja og Goldman Sach bankans í mars í fyrra á tæplega 30% hlut í Arion banka kom fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu að kaupunum fylgdu ekki atkvæðaréttur.

En samkvæmt nýbirtum ársreikningi Kaupskila, dótturfélags Kaupþings, fer Goldman Sach´s nú með atkvæðarétt fyrir sinn hluta. Hins vegar heldur Kaupskil atkvæðaréttinum fyrir vogunarsjóðina þangað til þeir hafa verið metnir hæfir eigendur eða þar til bankinn er skráður á markað, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Skömmu eftir tilkynningu Fjármálaeftirlitsins sendi það frá sér leiðréttingu þar sem segir að það hefði vitneskju um að það hefði upplýsingar um að atkvæðaréttur fylgdi fyrir þrjá af aðilunum, en ekki þann fjórða. Viðskiptablaðið sagði frá því í síðasta mánuði að bæði vogunarsjóðirnir og Goldman Sachs hefðu fallið frá kauprétti á um 22% eignarhlut í Arion banka til viðbótar, en hann gildir til 22. september.