*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. janúar 2017 14:05

Græðgin að ná yfirhöndinni

Forstjóri First Hotels segir miklar breytingar hafa orðið í ferðaþjónustunni undanfarið og staðan sé mjög viðkvæm.

Trausti Hafliðason
Stephen Meinich-Bache.

Stephen Meinich-Bache, forstjóri First Hotels, segist lengi hafa talið mikla möguleika vera í ferðaþjónustu á Íslandi.  Eins Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur skandinavíska hótelkeðjan hug á að reka nokkur hótel á Íslandi. Það fyrsta opnar í Hlíðasmára í Kópavogi á þessu ári.

Stephen segir að síðustu árum hafi orðið var við mikla breytingu í ferðaþjónustunni hérlendis.

„Mér finnst staðan núna vera mjög viðkvæm að því leyti að mér finnst græðgin svolítið vera að ná yfirhöndinni og það getur verið mjög varasamt," segir Stephen. „Í dag er dýrara að kaupa gistingu á frekar slæmu gistiheimili á Íslandi en góðu hóteli í Kaupmannahöfn. Það er dýrara að leigja þokkalegt húsnæði fyrir hótel í Reykjavík en að leigja mjög gott hótel á besta stað í Stokkhólmi. Þetta getur ekki verið rökrétt og þess vegna er ég svolítið áhyggjufullur fyrir hönd Íslendinga.

Í ferðaþjónustugeiranum skiptir orðspor öllu máli. Á þessari tækniöld sem við búum í kvisast neikvæð upplifun gesta mjög fljótt út. Ferðaþjónustan getur heldur ekki haldið áfram að vaxa um 15 til 30% á ári. Innviðirnir eru til dæmis ekki nógu góðir til þess að þessi þróun gangi til lengdar.

Hafandi sagt þetta þá tel ég enn tækifæri vera á Íslandi, því landið er framandi, náttúran stórbrotin og maturinn er ótrúlega góður. Maturinn er líklega eitt af því sem ég kann hvað mest að meta við landið í dag."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.