Frumkvöðlafyrirtækið Græn framtíð hefur samið við tryggingafélagið Mondux í Noregi um endurnýtingu á smáraftækjum, sem viðskiptavinir skila inn vegna tjóna. Græn framtíð mun tryggja endurnýtingu á öllum smáraftækjum Mondux í Noregi, svo sem farsímum, spjaldtölvum, fartölvum og öðrum minni smáraftækjum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Grænni framtíð.

Mondux, sem er eitt stærsta tryggingafélag í Skandinavíu, er með starfsemi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Fyrir ári gerðu Græn framtíð og Mondux samning um endurnýtingu á tjónabúnaði í Danmörku en með þessum samingi eykst samstarf fyrirtækjanna til muna.

Mondux fær greitt fyrir öll tæki sem félagið lætur af hendi en þau verða ýmist endurnýtt og seld að nýju á mörkuðum víða um heim eða notuð í parta fyrir framleiðslu á öðrum tækjum.

Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar, segir samninginn við Mondux í Noregi vera afar stórt skref fyrir Græna framtíð og feli í sér aukin umsvif. Græn framtíð var afar lítið fyrirtæki í heimi endurnýtingar en hefur vaxið afar hratt. Bjartmar segir ástæðuna fyrir þessum vexti vera að þeir leggja gífurlega mikla áherslu á gagnaöryggi og umhverfisvernd í starfseminni. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru því öryggir um að tæki þeirra enda ekki á ruslahaugum. Þess í stað eru tækin endurnýtt í varahluti eða fara aftur í notkun eftir viðgerð, til dæmis í þriðja heims ríkjum.

Græn framtíð, sem er stofnað árið 2009, sérhæfir sig í endurnýtingu á smáraftækjum eins og spjaldtölvum, farsímum og fartölvum. Félagið er með starfsemi í Danmörku, Noregi, Nýfundnalandi, Færeyjum og á Álandseyjum.

Þá annast fyrirtækið endurnýtingu á smáraftækjum fyrir öll helstu raftækjafyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki á Íslandi.