Ef miðað verður við samningsvexti gengistryggðra lána mun höfuðstóll þeirra og greiðslubyrði lækka um allt að 60%. Ef miðað verður við tilmæli FME og Seðlabankans mun bæði höfuðstóll og greiðslubyrði lánanna einnig lækka um tugi prósenta.

Greiðslubyrði áður gengistryggðra lána lækkar um allt að 61% ef samningsvextir lánanna verða látnir standa. Ef farið verður eftir lægstu verðtryggðu eða óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands, líkt og tilmæli bankans og Fjármálaeftirlitsins (FME) segja til um, mun mánaðarleg greiðsla skuldara lækka um allt að 36%.

Hversu mikið greiðslan lækkar fer eftir því hvenær lánin voru tekin og til hversu langs tíma. Þá mun höfuðstóll lánanna lækka um allt að 60% ef miðað verður við óverðtryggða vexti Seðlabankans, en um allt að 47% ef miðað verður við verðtryggða vexti hans. Þetta kemur fram í útreikningum sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur látið gera um breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði myntkörfulána. Viðskiptablaðið hefur undir höndum umrædda útreikninga, sem bera heitið „áætlaðar leiðréttingar gengistryggðra lána“.

-Nánar í Viðskiptablaðinu