Nýsköpunarsjóðurinn Brunnur sem rekinn er af Landsbréfum hagnaðist um 75 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaður saman um 143 milljónir milli ára. Gangvirðisbreytingar á eignum félagsins voru jákvæðar um 167 milljónir en voru þó 137 milljónum lægri en ári áður. Í bókum sjóðsins er 1,9% hlutur í töflureiknafyrirtækinu Grid metinn á 31,4 milljónir sem jafngildir tæplega 1,7 milljarða heildarverðmæti.

Þá er 16,3% hlutur í augnlækningafyrirtækinu Oculis metinn á rúmlega 1,5 milljarða króna og hækkaði virði hans um 109 milljónir milli ára auk þess sem 20,4% hlutur í Avo Software er metinn á 301 milljón og hækkaði um 200 milljónir. Sjóðurinn átti þrjár fjárfestingar á síðasta ári en þær voru 34,2% hlutur í IMS ehf. fyrir 125 milljónir, 37,7% hlutur í Laki Power fyrir 125 milljónir og 25,9% hlutur í Nanitor ehf. fyrir 100 milljónir króna.