Grísk stjórnvöld hafa látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vita af því að ríkissjóður landsins muni ekki greiða 300 milljóna evra afborgun á láni sjóðsins sem er á gjalddaga á morgun. Í frétt Financial Times segir að mikil andstaða við greiðsluna hafi brotist út innan stjórnarflokksins Syriza eftir fund forsætisráðherrans Alexis Tsipras með lánadrottnum landsins í gær.

Ekki verður um formlegt greiðslufall að ræða, því grísk stjórnvöld ætla að nýta sér reglu sem heimilar þeim að safna öllum afborgunum innan sama mánaðar og greiða þær í einu um mánaðamót. Alls á gríska ríkið að greiða AGS 1,5 milljarð evra í júní.

Ákvörðunin kemur að nokkru leyti á óvart, því í morgun gaf Tsipras sterklega til kynna að inna ætti greiðsluna af hendi á morgun. Þá sagðist Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, ekki hafa trú á öðru en að greiðslan bærist. Taldi hún ekki líklegt að Grikkir myndu nýta sér áðurnefnda reglu, enda hefur hún ekki verið notuð síðan Zambía gerði það á níunda áratug síðustu aldar.