Ríkisstjórn Grikklands heldur í vonina um að fundur fjármálaráðherra evrulanda á morgun muni verða til þess að samkomulag náist um neyðarlán handa Grikkjum. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Fjármálaráðherrar evrulanda hafa útilokað að samkomulag verði undirritað við ríkisstjórn Grikklands á fundinum sem fer fram á morgun, enda séu of mörg óleyst vandamál þar í landi. Niðustaða fundarins mun því líklega ekki verða til þess að Seðlabanki Evrópu heimili Grískum bönkum aukinn aðgang að stuttum ríkisskuldabréfum, sem gæti orðið til þess að afstýra þjóðargjaldþroti Grikkja.

„Við vonum að sá mikli árangur sem hefur þegar náðst muni koma fram í yfirlýsingu frá fjármálaráðherrum evrulandanna, sem verði jákvætt teikn til marks um að samkomulag náist sem fyrst," er haft eftir ónefndum fulltrúa grískra stjórnvalda.

Grikkir hafa ekki náð að sannfæra lánveitendur sína hjá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að þeir muni geta tekist á við vandamál í ríkisfjármálum, lífeyrisskuldbindingum og atvinnumálum.