Gróa Ásgeirsdóttir, verkefnisstjóri hjá Flugfélagi Íslands, var kjörin nýr formaður FSH á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Salnum í Kópavogi í gær. Alls mættu um 100 manns á fundinn og var einróma vilji fundarmanna að blása lífi í samtökin sem voru stofnuð árið 1988 enda sé bæði þörf og vilji til samstarfs aðila í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.   „Þessi fundur markar vonandi nýtt upphaf að FSH og gefur tóninn um það sem koma skal í samstarfi ferðaþjónustuaðila á höfuðborgarsvæðinu.  Frábær mæting á aðalfundinn sýnir að þörf er fyrir samtökin og nú er bara að bretta upp ermar og undirbúa komu ferðamanna í höfuðborgina“ segir Gróa.

Ný stjórn, sem tók við á aðalfundi í gær, ásamt fjölda nýrra meðlima, er á einu máli um nauðsyn þess að stuðla að samvinnu aðila í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins eru samtök sveitarfélaga og ferðaþjóna á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur samtakanna er að vinna að hagsmunamálum aðila í ferðaþjónustu  og samræmingu í starfseminni á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk FSH er meðal annars að skipuleggja samstarf aðila innan samtakanna með fræðslu- og útgáfustarfsemi og efla sameiginlega kynningu á höfuðborgarsvæðinu. Vera tengiliður svæðisins við stjórnvöld og ferðamálaráð og ferðamálasamtök Íslands. Auk þess að stuðla að aukinni þjónustustarfsemi við ferðamenn, hafa frumkvæði og ýta undir nýjungar í ferðaþjónustu á svæðinu.

Ný stjórn FSH var kjörin á aðalfundi í gær og er stjórnarformaður Gróa Ásgeirsdóttir verkefnisstjóri hjá Flugfélagi Íslands. Fulltrúar sveitarfélagana í stjórn FSH eru eftirfarandi og voru tilnefndir voru fyrir aðalfundinn: Frá Reykjavíkurborg Áslaug Friðriksdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Marín Hrafnsdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, Ellen Calmon fræðslu- og menningarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar, Sigríður Dögg Auðunsdóttir forstöðumaður kynningarmála hjá Mosfellsbæ, Linda Udengård deildarstjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ, Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og Aðalheiður Birna Einarsdóttir Kjósahreppi. Fjórir stjórnarmenn til viðbótar sem koma úr ferðaþjónustugeiranum, voru kjörnir á fundinum: Renato Gruenenfelder framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar, Þórdís Pálsdóttir hjá Reykjavík Hotels, Ingibjörg Guðmundsdóttir Skemmtigarðinum og Þorvaldur Daníelsson hjá Starfsmannafélaginu.com. Á aðalfundi FSH fjallaði Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastýra Staðardagskrár 21 hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar um umsókn Reykjavíkurborgar að tilnefningu “Green Capital of Europe 2012” og þá möguleika og sóknarfæri sem felast í því að vera “græn borg”.