*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 2. desember 2021 14:37

Guðmundur gefur út nýtt samskiptaforrit

Íslenska sprotafyrirtækið Fractal 5 kynnti í dag fyrstu útgáfu félagsins af samskiptaforritinu Break á Slush ráðstefnunni í Finnlandi.

Ritstjórn
Guðmundur Hafsteinsson kynnti fyrstu útgáfu Break á sprotaráðstefnunni Slush í Finnlandi í dag.
Aðsend mynd

Guðmundur Hafsteinsson, stofnandi og forstjóri íslenska sprotafyrirtækisins Fractal 5, kynnti í dag fyrstu útgáfu félagsins af samskiptaforritinu Break á tækniráðstefnunni Slush í Finnlandi. Í tilkynningu segir að forritinu sé ætlað að auðveldi notendum að halda sambandi við breiðari hóp af fólk án mikillar fyrirhafnar.

Guðmundur, sem er jafnframt stjórnarformaður Icelandair og var lengi í stjórnunarstöðum hjá Google, sagði í kynningunni að  að margar leiðir væru til að eiga í samskiptum við fólk.

Eftir ítarlega skoðun hjá Fractal 5 væri niðurstaðan að fólk notaði mest megnis tvær aðferðir:  Annars vegar bein samskipti við sína nánustu í gegnum textaskilaboð, símtöl eða hittinga. Hins vegar með því að miðla því sem væri efst á baugi í lífi sínu til allra sem tengjast viðkomandi á Facebook, Instagram, Twitter eða sambærilegum miðlum. Hins vegar vantaði tæknilausn sem auðveldaði okkur að halda góðu sambandi við breiðari hóp fólks sem hefði orðið á vegi okkar á lífsleiðinni.

„Það ætti við um gamla skólafélaga, samstarfsfólk, stórfjölskyldu eða vinafólk sem við værum til í að eiga í óformlegum samskiptum við þegar tækifæri sköpuðust, þó án þess að þurfa að hringja í viðkomandi, senda skilaboð eða skipuleggja fundi á ákveðnum tíma. Samskipti væru mikilvægur hluti félagslífs okkar eins og til dæmis þegar við gengjum inn á kaffihús og hittum þar fólk fyrir tilviljun. Með Break munu þeir sem hefðu tíma og áhuga samþykkja að eiga stund með öðrum sem tryggði á sama tíma gagnkvæman áhuga á að hittast eða spjalla. Slíkar tengingar væru skemmtilegar, oft óvæntar og krefðust lítillar fyrirhafnar," segir í tilkynningu frá Fractal 5 en félagið sótti sér fyrr á þessu ári um 400 milljóna króna fjárfestingu sem leidd var af Menlo Ventures.

„Break snýst um að auðvelda notendum að ná til stærri hóps á einfaldari máta. Við viljum gera fólki kleift að skapa stundir, hvort sem það er spjall eða fara á kaffihús saman eða í bjór eftir vinnu og bjóða stórum hópi fólks sem getur þá tekið þátt eða leitt það hjá sér ef það hefur ekki tíma þá stundina," er haft eftir Guðmundi.

„Notendum finnst jafnframt skemmtileg upplifun að geta fylgst með því sem er að gerast í þeirra félagsneti með því að skoða yfirlit yfir þau Break sem búið er að stofna til í forritinu," bætir Guðmundur við en hægt er að kynna sér forritið og sækja það á break.is.