Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það dylst engum að töluverður hópur fólks velti fyrir sér að stofna nýjan flokk. „Þetta kemur ekki á óvart að menn séu í þessum pælingum miðað við stöðuna,“ segir Gunnar Bragi.

Hann var spurður út í það hvort að hann hygðist segja sig úr Framsóknarflokknum til að að stofna nýjan flokk. Hann segist svo ekki vera. Honum fannst ástæða til þess að láta vita að hann tengdist ekki þessum áformum.

Þegar Gunnar Bragi er spurður út í það hvaða vandamál Framsókn eigi við að etja segir hann: „Ég held að ég geymi mér aðeins að ræða það. Versta útkoma í sögu flokksins í kosningum og að hafa ekki fengið stjórnarmyndunarumboðið er eitthvað sem flokksmenn þurfa að velta fyrir sér hvað þýðir.“

Í færslu á Facebook síðu sinni segir hann eftirfarandi;

Nýr flokkur?

Ég hef verið spurður hvort ég tengist hugmyndum um að stofna nýjan flokk. Það geri ég ekki.
Framsóknarflokkurinn er illa staddur eftir verstu kosningaúrslit í sögu flokksins og er nú næst minnsti stjórnarandstöðu flokkurinn. Líklega hefur flokkurinn í seinni tíð ekki verið á jafn vondum stað.
Svona hugmyndir koma því ekki á óvart.