Hæstiréttur dæmdi í dag Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa látið koma gögnum til DV um viðskipti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns til DV árið 2012.

Gögnin komu úr Landsbankanum og var Þórarinn Már Þorbjörnsson, sem náði í gögnin fyrir Gunnar, dæmdur til að greiða sekt vegna þessa upp á eina milljón króna. Þórarni var sagt upp störfum í kjölfar þess að málið kom upp og Gunnari líka.

Dómurinn er talsvert þyngri en héraðsdómur Reykjavíkur hafði fellt yfir Gunnari. Þar hlaut hann tveggja milljóna króna sekt. Dómurinn yfir Þórarni er hins vegar staðfestur.

Í dómi Hæstaréttar segir m.a. „Við ákvörðun refsingar ákærða Gunnars verður litið til þess að hann hafði styrkan og einbeittan vilja til brotsins og að tilgangur hans með því var að koma höggi á fyrrnefndan mann sem hann taldi sig eiga sökótt við. Að þessu virtu og með vísan til 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, svo og refsiforsendna héraðsdóms að öðru leyti er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem eftir atvikum er rétt að binda skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir.“

Dómur Hæstaréttar