Gunnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sérleyfisbíla Akureyrar, segist vera á móti hugmyndum um náttúrupassa. „Ég tel að okkar ágætu ferðamenn verði ekki svo heiðarlegir að þeir kaupi náttúrupassann. Þetta verður allt of mikill kostnaður og fer allt í sjálft sig. Ef það á að vera eitthvert eftirlit af viti til að fylgjast með þessu þá fer þetta allt í laun og kostnað. ég er alfarið hlynntur því að setja á landamæragjald og skil ekki þá umræðu að það sé ekki hægt. Skattleggja þá ákveðna upphæð á mann í gegnum flugfélag og skip. Þetta er mjög auðvelt í framkvæmd. Ég veit ekki um neinn sem hefur kvartað yfir því að borga þetta í Bandaríkjunum.“

Í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu segir Gunnar að þetta sé langauðveldasta leiðin og sú skilvirkasta. „Ég vil stofna sérfélag sem ríkið á um þessa peninga og láta þá renna í ríkissjóð. Síðan á að hafa öfluga stjórn í því félagi sem úthlutar þessum peningum eftir því hverjirsækja um til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Þetta er eins og með vegaskattinn. Við borgum engar smá upphæðir í vegaskatt en þeir peningar koma ekki í vegina eins og við vitum. Síðan er það gistináttgjaldið sem er líka gallað því það fer misjafnt á litlu og stóru aðilana. Ég held bara að náttúrupassafyrirkomulagið komi aldrei til með að virka og gera nóg fyrir okkur.“

Lesa má ítarlegt viðtal við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .