Gunnar Már Sigurfinnsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Icelandair Cargo og tekur við starfinu af Pétri J. Eiríkssyni. Gunnar Már hefur verið framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs Icelandair undanfarin þrjú ár.

"Icelandair Cargo er öflugt fyrirtæki á sínu sviði og það er spennandi tækifæri fyrir mig að vinna með frábæru starfsfólki þess að framtíðaruppbyggingu fyrirtækisins. Ég þakka jafnframt samstarfsfólki mínu hjá Icelandair fyrir samstarfið og óska eftirmanni mínum þar alls hins besta", segir Gunnar Már Sigurfinnsson.

"Gunnar Már hefur stýrt sölu og markaðsmálum Icelandair á undanförnum árum af festu og það er Icelandair Group mikilvægt að fá nú að njóta krafta hans sem framkvæmdastjóra Icelandair Cargo. Þar bíða krefjandi verkefni í ljósi óvissu í efnahagsmálum og við væntum mikils af störfum hans þar", segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Áður en Gunnar varð framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair var hann svæðisstjóri félagsins í Mið-Evrópu með aðsetur í Frankfurt og gengdi áður ýmsum störfum hjá félaginu, m.a. sem sölustjóri Flugfélags Íslands. Hann er 43 ára viðskiptafræðingur frá HÍ, er kvæntur Lindu Hængsdóttur og eiga þau tvö börn.